„Gengur lygin frá #metoo?“ spyr lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson á Facebook í dag.
„Á dögunum benti ég á í pistli á Facebook, sem dv.is tók upp og birti, að sögur af ofbeldi á samfélagsmiðlum væru ekki endilega alltaf sannar, og nefndi að fjölmiðlar gerðu lítið í því að sannreyna slíkar sögur áður en fréttir byggðar á þeim væru birtar. Þessi pistill var ekki skrifaður af tilefnislausu, heldur vegna þess að ég lagðist yfir og skoðaði gögn, sem manneskja hafði birt á samfélagsmiðlum sínum og fjölmiðlar og góða fólkið gleyptu athugasemdalaust við, og fjallað var um eins og hinn hreina sannleika.“
Við þetta fólk – vil ég segja…
„Skrif mín fóru fyrir brjóstið á nokkrum manneskjum. Eins og oft áður gleymdu þeir sem hæst buldi í málefninu og beitt var hefðbundnum fúkyrðaflaumi. Orðfæri og vanstillingin þessara aðila segir allt um höfundana og verður seint talið þeim til sóma, frekar en hótanir sem hafa borist með skilaboðum úr símum með óskráðum númerum og skítkast frá mönnum sem ljúga upp á sig starfsheitum og stöðum, vegna þess að þeir treysta sér ekki til að sýna sitt rétta andlit,“ skrifar Sigurður.
„Við þetta ágæta fólk, sem má hafa allar skoðanir á mér persónulega, vil ég bara segja, að baráttu gegn ofbeldi í hvaða mynd sem er, er hætta búin í dag vegna þeirra sem ganga um ljúgandi til þess að skapa sér stöðu og álit sem engin innistæða er fyrir.
Það fólk er líklegra til ganga frá #metoo en ég, sem hef tekið slagi fyrir fleiri enn einn þolanda ofbeldis í víðustu merkingu þess orðs. Set svo hér amen eftir efninu og þakka góðar kveðjur,“ segir hann að lokum og birtir fjölda skjáskota með færslu sinni.
Pistillinn á facebook á dögunum
„Við þá yfirborðskenndu umræðu, sem einkum fór fram á miðlum RÚV var kallaður til fjöldi álitsgjafa, svo sem fólk úr háskólasamfélaginu, manneskjur á framabraut í viðskiptalífinu og forseti ASÍ. Allir áttu álitsgjafarnir það sameiginlegt að þekkja ekkert til málsins og innlegg þeirra af þeim sökum voru misgáfuleg,“ skrifar Sigurður.
„Skoðun á frásögnum manneskjunnar af ofbeldinu hefur leitt í ljós að frásögnin er síbreytileg og lifandi. Efnið virðist ráðast nokkuð af því hverjum skal fórnað, ,,hent undir strætó” svo notað sé orðfæri sem manneskjunni er tamt að nota.“
Sigurður segir háttsemina minna sig á háttsemi Önnu „sem laug á sig auði í Evrópu, og hafði fjármálaelítu New York að fífli með síbreytilegum sögum og lék fleiri en eitt hlutverk. Sögur Önnu reyndust hrein lygi eins og sjá má í Netflixþáttum um hana.“