„Þetta var bara eins og í Amerískri sápuóperu,“ sagði nafnlaus heimildarmaður sem þekkir vel til fjölbýlishússins að Miðvangi 41, í samtali við Mannlíf í morgun. Mikill viðbúnaður var við húsið í gær eftir að karlmaður, á þriðju hæð, skaut á að minnsta kosti tvær bifreiðar.
Ökumaður var í annarri bifreiðinni, ásamt sex ára gömlum syni sínum, þegar skotin dundu á bílnum. Feðgarnir voru á leið í leikskólann þegar atvikið átti sér stað en sagði faðirinn í samtali við Vísi í gær að árásin hafi verið mikið áfall. Sérsveit lögreglu var kölluð út í kjölfarið og setið var um íbúð mannsins í rúmlega fjórar klukkustundir. Að lokum gaf maðurinn sig sjálfviljugur fram en skotárásin verður rannsökuð sem tilraun til manndráps.
Maðurinn sem var handtekinn er á sjötugsaldri og búsettur á þriðju hæð hússins. Þá staðfesti heimildarmaður Mannlífs að maðurinn hafi búið einn í íbúðinni. Aðspurður hvort ónæði hafi verið af manninum sagði hann svo ekki vera. „Nei, nei, rólegasti maður.“