Þriðjungur heims er nú annaðhvort í sóttkví eða útgöngubanni vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Margir upplifa hræðslu enda sér ekki fyrir endann á þessari vá. Rithöfundurinn Óttar M. Norðfjörð er búsettur í Barcelona ásamt eiginkonu sinni, Eloísu Vázquez, og ungum syni þeirra. Hér lýsir hann útgöngubanninu á Spáni og hinnum undarlegu síðustu dögum.
Árið 1700 hurfu ellefu dagar úr íslenska dagatalinu. Fólk sem fór að sofa miðvikudaginn 17. nóvember vaknaði mánudaginn 29. nóvember, því júlíska tímatalinu var skipt út fyrir það gregoríska til að laga innbyggða skekkju sem hafði vaxið í gegnum aldirnar og orsakað ellefu aukadaga þegar hér var komið sögu. Ég á nokkra vini sem hefðu einfaldlega misst af afmælisdeginum sínum það árið. Frekar fúlt. En Íslendingar í þá daga bjuggu náttúrlega enn þá í moldarkofum, liðu matarskort og meðalævilengd var í kringum 35 ár, svo kannski var pulsupartí ekki ofarlega á dagskrá hvort sem er.
„Ég er búinn að hlusta svo oft á „Life is a Rollercoaster“ með Ronan Keating og „Never Gonna Give You Up“ með Rick Astley – uppáhaldslög stráksins míns – að það er farið að ógna geðheilsu minni meira en fréttir af COVID-19.“
Í dag varð mér hugsað til þessara ellefu horfnu daga fyrir rúmlega 300 árum, því þegar ég skrifa þetta er ég á ellefta degi í hálfgerðri sóttkví og tilfinning mín fyrir þeim er einhvern veginn svipuð. Það er eins og síðustu dagar hafi hreinlega horfið, enda höfum við sem búum hér á Spáni lifað í einhvers konar tómi, í einhvers konar tímaleysi, frá því að neyðarástandi var lýst yfir í landinu og útgöngubann sett á. Frumsýningar bíómynda, tónleikar, íþróttaviðburðir, hátíðir, afmælisveislur og annað sem átti að fara fram í mars og apríl hefur verið blásið af eða fært aftar. Árið 2020 er árið sem vorinu var frestað fram á haust.
Life is a Rollercoaster
Eða er kannski tóm vitleysa að hugsa um þetta sem gat í dagatalinu? Sem horfnar vikur? Það má hugsanlega segja að við höfum aldrei áður fengið jafnmikinn tíma að gjöf og akkúrat núna. Öll áttum við að vera að gera eitthvað allt annað en að hanga heima hjá okkur, önnum kafin í hversdagsleikanum, önnum kafin að vinna, fara í ræktina, sækja börnin, undirbúa næsta ferðalag. En svo er eins og risastór hendi hafi sópað öllum plönum heimsbyggðarinnar út af borðinu. Kannski eigum við að líta á þetta eins og þegar maður heldur að það sé miðvikudagur, en það er í raun þriðjudagur. Spurningin er bara hvað við ætlum að gera við þennan óvænta tíma sem við fengum til að vera heima hjá okkur.
Í mínu tilviki eru þetta eiginkonan mín, tæplega tveggja ára gamli sonur okkar og ég. Konan mín er þar að auki komin 33 vikur á leið og við ákváðum þess vegna að fara sérstaklega varlega. Óléttar konur eru ekki taldar í sérstökum áhættuhópi vegna veirunnar, en maður veit aldrei. Við byrjuðum því í okkar sóttkví nokkrum dögum áður en hún var sett á og konan mín hefur ekki farið út síðan. Það er vissulega áskorun að hafa lítinn gutta heima allan daginn, fullan af orku og vanan því að fara út, en börn eru fljót að læra og hann er strax orðinn sáttur við það að vera alinn upp sem inniköttur. En maður verður samt að hafa ofan af fyrir honum. Við hlaupum til dæmis mikið í kringum stofuborðið með blöðrum og tónlist, nágrannanum til mikillar gleði er ég viss um. Ég er búinn að hlusta svo oft á „Life is a Rollercoaster“ með Ronan Keating og „Never Gonna Give You Up“ með Rick Astley – uppáhaldslög stráksins míns – að það er farið að ógna geðheilsu minni meira en fréttir af COVID-19. Ég er líka búinn að heyra Disney-klúbbs hljóðbókina Bambi – Týndi íkorninn svo oft að ég er alvarlega að hugsa um að skrifa doktorsritgerð um hana þegar faraldrinum lýkur, enda brennur fjöldinn allur af spurningum á mér um þetta margslungna verk. Hvers vegna er týndi íkorninn, hún Smá, til dæmis flissandi í byrjun bókarinnar þótt hún sé nýbúin að týna mömmu sinni? Og hvers vegna leitar mamma hennar ekki að henni, heldur bíður bara eftir því að Bambi bjargi málunum? Getur verið að Smá hafi ekki týnst eftir allt saman, heldur í raun flúið ofbeldisfullt heimili og brotna æsku?
Þegar þetta eru spurningarnar sem leita á mann kemur kannski ekki á óvart að fólk telji að öll þessi innivera muni splundra fjölskyldum og leiða til skilnaða. Tölur frá Kína virtust meira að segja benda til þess, en dregið hefur verið í land með það. Mig grunar nefnilega að fólk verði bara nánara ef eitthvað er. Á tímum sem þessum lærir fólk að taka ekki öllu sem sjálfsögðum hlut og það gildir líka um hvort annað. Ég á nágranna hérna í Barcelona sem ég heyri stundum rífast, en ég hef ekki heyrt bofs í þeim síðan að útgöngubannið hófst. Getur verið að þau, eins og aðrir, sjái loksins hvað skiptir raunverulegu máli? Ég vona að minnsta kosti að það sé ástæðan fyrir þögninni frá íbúð nágrannanna og ekki eitthvað annað.
Nánar í helgarblaðinu Mannlíf.
Texti / Óttar M. Norðfjörð
Myndir / Elo Vázquez