Lögregla réðist í umtalsverðar aðgerðir til þess að koma hústökufólki út úr gömlu húsi í miðbæ Reykjavíkur í apríl árið 2009. Það var hópur ungs fólks sem hafði sest þar að og hugðist stofna félags- og listamiðstöð. Eftir að lögregla hafði gefið fólkinu tækifæri til þess að fara út úr húsnæðinu án árangurs, réðist hún inn í húsið – meðal annars vopnuð keðjusög. Hústökufólkið sat sem fastast allt til enda og skvetti meðal annars málningu á lögreglumenn.
Eigandinn sagðist hafa áhyggjur af eldhættu
„Þann 11. apríl 2009 hefur eigandi yfirgefins húss við Vatnsstíg 7 samband við lögreglu höfuðborgarsvæðisins og lýsir áhyggjum sínum yfir því að fólk sé búið að koma sér þar fyrir. Eigandinn lýsir því að ekkert rafmagn sé á húsinu né vatn, og það hafi verið dæmt óíbúðarhæft. Hann segir að með hústökufólki skapist eldhætta. Af henni hafi hann áhyggjur, enda ábyrgur sem eigandi hússins.“
Svo hljóðar frásögn í sjónvarpi mbl.is af upphafi atburðanna í aprílmánuði árið 2009 í miðbæ Reykjavíkur.
Umfjöllunin var gerð árið 2012 og er aðgengileg hér: Glíma hústökufólks og lögreglu.
Aðalvarðstjóri lögreglunnar sem rætt var við í myndskeiðinu, Arnar Rúnar Marteinsson, sagði töluverðan fjölda hafa safnast saman við húsið þegar lögreglu bar að garði.
„Þetta var töluverður mannfjöldi þarna og þeir áttu greinilega von á því að lögreglan kæmi þarna og þeir ætluðu að verja húsið. Við vorum ekkert að flýta okkur sérstaklega, en höfðum auga með þessu og slökkviliðið vissi af þessu, þannig að við vorum tilbúin að bregðast fljótt við.“
Hópurinn er sagður hafa þrifið húsið þegar hann fluttist þangað inn og hafi að því loknu efnt til opins húss. Hústökufólkið sagðist ætla sér að stunda listir í húsinu, halda þar fyrirlestra, námskeið og annað. Það var þeirra skoðun að betra væri að húsið fengi hlutverk í stað þess að það drabbaðist niður, en það hafði staðið autt um nokkurt skeið á þessum tíma og var ekki í góðu ásigkomulagi.
Að fólk taki húsin sín sjálft
Meðal þeirra sem höfðust við í húsinu var listakonan Steinunn Gunnlaugsdóttir. „Í heildina held ég að við höfum haft þá hugmynd að fara þarna inn, stofna félagsmiðstöð, félagsrými þar sem fólk gæti komið. Fólk sem er í andstöðu við ríkisvaldið og ríkjandi ástand. Við vissum náttúrulega að við vorum að ögra. Þarna var náttúrulega ný ríkisstjórn nýtekin við, bráðabirgðaríkisstjórn – vinstri stjórn. Við vissum að við vorum líka að ögra þeim, því þarna var rosalega mikið verið að tala um að bjarga heimilunum og allar þessar klisjur. Og við sögðum: Já, þetta er ein tilraun til þess að bjarga heimilunum. Að fólk taki bara húsin sín sjálft.“
Þau sem sest höfðu að í húsinu dvöldu þar yfir páskahelgina. Samkvæmt frásögn Steinunnar var þar mikill gestagangur. Lögregla hafi ekki látið sjá sig fyrr en að morgni miðvikudagsins 15. apríl.
„Við ákváðum að það væri sniðugra að leyfa fólkinu að vera þarna og koma svo um morguninn. Þá voru þrír þarna á verði fyrir utan húsið og áttu að passa það, en það var enginn fjöldi,“ sagði Arnar Rúnar.
Á meðan lögregla hafði frestað aðgerðum sat hústökufólk og aðrir vinir og vandamenn ekki auðum höndum, líkt og fram kemur í myndskeiðinu. Virki var reist umhverfis húsið, sem búið var til úr hinum ýmsu húsgögnum og munum úr húsum í kring sem einnig stóðu auð á þessum tíma. Eldur var kveiktur í tunnu og fólk safnaðist saman í kring með hrópum og köllum.
Steinunn sagði það ekki beinlínis hafa komið á óvart þegar hústökufólkið sá fjölda lögreglumanna á vettvangi. Hún sagði daginn eftirminnilegan.
Þegar lögregla réðist í aðgerðirnar var götunni lokað í báða enda og slökkvilið viðbúið.
Samkvæmt lögreglu var fólkinu ítrekað boðið að koma út úr húsinu án afleiðinga. Því varð það ekki við. Eftir lokaviðvörun hófust aðgerðirnar og lögregla lagði til atlögu með hjálma á höfðum og skyldi í höndum. Hústökufólkið sletti málningu út um glugga á lögreglumennina.
Enduðu á að nota keðjusög
Fólkið hafði safnast saman á efstu hæð hússins og lögreglumenn notuðust við hin ýmsu verkfæri til að athafna sig innandyra og reyna að komast að fólkinu, og koma því út. Í ljós kom að neglt hafði verið fyrir stigaopið upp á efstu hæðina og búið að koma rúmi þar fyrir ofan á. Í gegnum göt var svo ýmsu hellt yfir eða kastað í lögreglu, til dæmis málningu, ávöxtum og grjóti.
„Þetta var í rauninni heilmikil aðgerð,“ sagði Arnar Rúnar. Að lokum brá lögregla á það ráð að fara með keðjusög inn í húsið og saga í sundur lokuna fyrir stigaopinu.
„Þeir voru að saga upp á milli lappanna á okkur,“ sagði Steinunn í upprifjun sinni.
Hún sagði til að mynda að strákur sem hafðist við á efstu hæðinni hafi fengið sögina upp á milli fótanna.
Til stóð að rífa húsið á Vatnsstíg. Lögregla hafði því ekki áhyggjur af því að skemma þar innanstokksmuni, glugga og fleira. „Við þurftum ekkert að vanda okkur neitt sérstaklega mikið. Það var vitað,“ sagði Arnar.
Að lokum sagaði lögregla sig í gegnum stigaopið og beitti síðan piparúða á hústökufólkið til þess að fá það til þess að fara frá opinu. Því næst var fólkið handtekið uppi í risinu.
„Þeir komu þarna inn, búnir að þamba Red Bull allan morguninn og alveg sturlaðir af pirringi,“ sagði Steinunn. „Þannig að þegar þeir komu inn voru þeir ekkert sérstaklega glæsilegir. Útbíaðir í einhverju skyri og jógúrti, slökkvitækisdufti, málningu og eitthvað. Og alveg rosalega pirraðir.“
Kærði lögreglu fyrir árás
16 einstaklingar voru handteknir inni í húsinu. Fleiri í viðbót voru handteknir fyrir utan húsið, meðal annars fyrir að reyna að hindra störf lögreglu. Alls voru því 22 handteknir í aðgerðunum þennan dag. Samkvæmt lögreglu hlaut enginn alvarleg meiðsli en einn hinna handteknu hafi þó kvartað vegna eymsla.
Steinunn sagðist hafa kært lögreglu fyrir árás. „Rétt áður en við komum út, þá tekur hann utan um hárið á mér og lemur hausnum á mér utan í dyrastaf. Sem verður til þess að ég vankast og fæ eflaust einhversskonar heilahristing. Ég var vönkuð mjög lengi og kastaði upp í fangaklefanum. Það brotnaði upp úr tönn hjá mér og ég var án læknishjálpar og án nokkurrar aðstoðar eða eftirlits í marga klukkutíma niðri á lögreglustöð.“
Ríkissaksóknari rannsakaði málið en það var fellt niður og ásakanirnar ekki taldar á rökum reistar, líkt og segir í umfjöllun um málið.
Arnar Rúnar sagði að betra væri að hafa fjölmiðlafólk með myndavélar á lofti í kringum ýmiss konar mótmæli, því lögregla hefði lent í því að vera sökuð um að beita miklu harðræði. „Þegar myndirnar frá fjölmiðlum eru sýndar kemur í ljós að það vantar eitthvað inn í frásögnina hjá þeim sem eru að saka okkur um það.“
Lögregla þurfti að fara í fleiri aðgerðir vegna hústökufólks á þessum mikla umrótatíma í íslensku samfélagi. Engar aðgerðanna voru þó jafn umfangsmiklar og þær á Vatnsstígnum þennan apríldag.
„Ég er mjög ánægð með að við skyldum gera þetta og ég myndi gera þetta aftur ef mér finndist það vera réttur tími eða rétt fólk sem væri til í það með mér. Ég veit ekki hverju þetta skilaði út í samfélagið en þetta var allavega fullkomlega réttmæt ákvörðun akkúrat á þessu spennuþrungna mómenti í samfélaginu,“ sagði Steinunn.