Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir segist sakna þess ógurlega að geta ekki knúsað vini sína þessar vikurnar. Til þess að sýna þeim væntumþykju sína og þakklæti sendi hún matarkörfu með bröns á þrjú heimili í Reykjavík annan í páskum, þrátt fyrir að vera sjálf stödd á Borgarfirði eystri, þar sem hún býr sig undir sauðburð.
„Ég sendi nokkrum vinum mínum, sem hafa komið mér í gegnum þessar vikur, bröns,“ útskýrir Aldís Fjóla. „Það er svolítið erfitt að vera einhleypur í þessu snertingabanni og þessir vinir mínir hafa verið duglegir að fara með mér út að ganga, innan vissra marka, og hringja í mig og peppa mig upp við upptökurnar á plötunni sem ég var að klára, þótt ég væri alveg orðin vonlaus um að hún gæti klárast.“
Ofboðslega erfitt að mega ekki knúsa
Aldís Fjóla er frá Borgarfirði eystri og þar býr faðir hennar. Hún hafði alltaf stefnt að því að fara austur til að aðstoða við sauðburðinn í maí, en flýtti þeirri för vegna ástandsins. „Þegar ég var komin hingað austur langaði mig rosalega mikið til að þakka þessum vinum mínum fyrir hjálpina með einhverjum hætti,“ segir Aldís.
Aldís segir að hún hafi ákveðið að fara þessa leið til að „knúsa“ vini sína, vegna þess að henni finnist bröns góður og vinirnir æðislegir. „Ég á mjög erfitt með þetta knús- og kossaleysi, svo ég minnist nú aftur á að ég sé einhleyp,“ bætir hún við og skellihlær.
Lestu skemmtilegt viðtalið við Aldísi í heild sinni í nýjasta Mannlífi.
Mynd / Ingibjörg Torfadóttir