Fyrir þá sem ætla að elta góða veðrið um helgina er Akureyri líklega ekki rétti staðurinn. Búist er við skýjuðu veðri um allt land, fram á sunnudag, að frátöldum Vestmannaeyjum. Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands er búist við kólnandi veðri á Norðurlandi. Hiti verður á bilinu 4-9 stig en um hádegi á sunnudag er búist við aðeins fjórum gráðum á Akureyri og sex gráðum á Blönduósi. Þá tekur að hlýna á ný á þriðjudag.
„Á þriðjudag:
Hæg vestlæg eða breytileg átt og víða bjartviðri, en þykknar upp með lítilsháttar vætu á vestanverðu landinu. Hiti 10 til 16 stig.
Á miðvikudag:
Suðvestanátt og súld eða rigning með köflum, en þurrt að kalla á Austurlandi. Hiti breytist lítið.“