Guðjón Karl Reynisson, stjórnarformaður hjá Festi, stígur fram í fjölmiðlum í dag og leitast við að útskýra brottrekstur Eggerts Þórs Kristóferssonar úr starfi farsæls forstjóra félagsins. Skýringarnar eru þó einstaklega þunnar og í raun engar aðrar en þær að stjórnin hafi þráð breytingar. „Stjórnin taldi þó að kominn væri tími á breytingar og við tilkynntum fráfarandi forstjóra það,“ segir hann við Moggann og taldi Eggert Þór væri sáttur við niðurstöðuna.
Orðrómur er uppi um að ástæða fyrir brottrekstrinum sé mál Vítalíu Lazareva sem sakar tvo áhrifamikla hluthafa í Festi, Þórð Má Jóhannsson og Hreggvið Jónsson um kynferðislegt áreiti í sumarbústað Þórðar í Skorradal. Eggert Þór átti samtöl við Vítalíu um það mál og sýndi henni að sögn skilning. Aðalfundur verður haldinn í Festi á næstunni. Meðal tillagna þar er að nafni félagsins verði breytt í Sundrung. Guðjón gefur kost á sér sem stjórnarformaður áfram og vill vanda til vals á nýjum forstjóra …