Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Grétar Mar gefur lítið fyrir forystu sjómannasamtakanna: „Skipstjórar hræddir við útgerðarmennina“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er ákveðin hætta fyrir hendi þegar koma svona aðkomumenn í rauninni sem Samherji og Síldarvinnslan eru; hugsanlega bara eftir þeirra geðþótta fara þeir með allan kvótann úr Grindavík,“ segir Grétar Mar Jónsson í hlaðvarpinu Sjóaranum þegar hann er spurður hvernig honum lítist á tíðindi dagsins sem eru að Vísir í Grindavík er að renna undir Síldarvinnsluna og þar með Samherja. Grétar Mar er búinn að vera baráttumaður fyrir hagsmunamálum sjómanna um áratugaskeið, var formaður í skipstjóra- og stýrimannafélaginu Vísi í sjö ár og stjórnarmaður í Farmannasambandinu á sínum tíma; forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins.

Núna heyrir maður eiginlega fagnaðarlæti úr Grindavík.

„Já, ég man eftir svona fagnaðarlátum í Sandgerði þegar HB og Miðnes voru sameinuð. Þá átti að bæta við og auka og skapa fleiri störf og konur fengu að sitja við það í eina vertíð að þræða loðnu upp á prik til að þurrka. Svo var búið að taka allan kvótann upp á Akranes úr Sandgerði og engin hafnargjöld náttúrlega og ekki atvinna heldur. Þetta er bara það sem er innbyggt í þessu blessaða fiskveiðistjórnunarkerfi okkar að menn eru alltaf að sameina. Og nú skilst mér meira að segja að þeir séu yfir í þessi 12%, Síldarvinnslan, með þessu. Og þeir komast upp með það þegjandi og hljóðalaust eða svo virðist vera.“

Og þeir komast upp með það að vera langt yfir öllum mörkum.

En Síldarvinnslan er náttúrlega bara Samherji.

„Í rauninni og auðvitað er kvótaeign Síldarvinnslunnar búin að vera í nokkur ár 50% í eigu Samherja. Og þeir komast upp með það að vera langt yfir öllum mörkum.

Ég er ekki að segja að þeir muni ekki halda áfram með fiskvinnslu í Grindavík. En það er alveg viðbúið að það verði breytingar með tíð og tíma þó það skeði ekki á morgun eða hinn.“

- Auglýsing -

Það er ekkert hægt að lofa einhverju svona er það?

„Nei, það er í rauninni ekki hægt. Svo er það bara hvað er best fyrir Síldarvinnsluna að gera. Er betra að vinna fiskinn fyrir norðan á Dalvík eða á Akureyri eða hvar sem er?“

Það verður ekkert spurt um byggðarsjónarmið þar?

- Auglýsing -

„Nei.“

Og kannski er það ekkert í raun og veru hægt?

„Nei, þetta er bara afleiðing af þessum framseljanlegu veiðiheimildum sem eru í gangi og með öllum þeim göllum sem þeim fylgja. Fiskveiðistjórnunarkerfið sem sumir segja að sé besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi hefur aldrei verið að skila okkur neinum árangri. Við munum nú eftir því sem ungir menn þegar okkur var lofað því ef við færum að tillögu Hafró í tvö þrjú ár að þá vorum við farnir að veiða 450-500.000 tonn á ári af þorski.“

Og það hefur ekki ræst úr því.

Það hefur ekkert gerst.

„Og það hefur ekki ræst úr því. Og í rauninni höfum við aldrei farið yfir 267.000 tonn sem var kvótinn á fyrsta kvótaárinu.“

Þú ert Suðurnesjamaður og bjóst lengst af í Sandgerði en fluttir svo til Hafnarfjarðar. Það vekur athygli þegar ekið er niður á hafnirnar að þetta er steindautt; það er að segja Keflavík. Það er búin öll útgerð þar.

„Þú getur eiginlega byrjað í Vogunum. Útgerðin sem var þar, sem var góð útgerð og hét Valdimar, gerði út þrjá báta á sínum tíma. Þeir sameinuðust Þorbirninum í Grindavík um leið og Fiskanes sameinaðist Þorbirninum og fleiri fyrirtæki. Svo náttúrlega er kvóti í Garðinum. Nesfiskur á töluvert af kvóta; gerir út náttúrlega bæði í Hafnarfirði frystiskipið sitt, Baldvin Njálsson, og svo eru bátarnir gerðir út úr Sandgerði að stærstum hluta.“

 

Miklar afleiðingar

Grétar Mar hefur lengi barist gegn kvótanum. Er þetta allt komið á daginn eins og þetta getur verið verst; eins og hann og fleiri spáðu?

„Ég man eftir því að við skrifuðum einhvern tímann grein, ég og Guðjón Arnar, og bentum á hvað þetta þýddi, frjálsa framsalið sem var sett á 1991. Og það hefur allt komið á daginn sem við sögðum þá hvað myndi gerast.“

Þessir stóru gleypa hina smáu.

„Það er bara lögmálið í þessu á meðan þetta er svona.“

Vísir keypti upp var það ekki Djúpavog? Þingeyri?

„Jú.

HB sameinaðist Miðnesi í Sandgerði sem var með tvo togara og þrjá báta. Eða fjóra. Og svo Keflvíking, loðnubát. Og þetta hefur allt farið saman.“

Svo fór Akranes náttúrlega þegar Reykjavík gleypti það.

„Já.“

Er þetta ekki hagkvæmni stærðarinnar?

„Það held ég ekki.“

Þú ert ekki á því.

Á móti kemur að það eru svo miklar afleiðingar.

„Nei, auðvitað er stærðarhagkvæmni á mörgum sviðum mjög æskileg og góð en á móti kemur að það eru svo miklar afleiðingar. Ef maður fer yfir sveitarfélögin sem hafa farið illa út úr þessu; þú getur farið á Þingeyri. Þú getur farið á Flateyri. Þú getur farið á Súgandafjörð. Ísafjörð. Bolungarvík, þó þeir hafa kannski aðeins náð að berjast í þessu. Svo getur þú farið á Drangsnes og Hólmavík. Og svo getur þú farið áfram á Kópasker, Raufarhöfn og Húsavík, Bakkafjörð og Borgarfjörð eystri. Þú getur talið endalaust upp. Breiðdalsvík og Stöðvarfjörð, Reyðarfjörð og Djúpavog. Þetta er hringinn. Náttúrlega er Sandgerði kvótalaus og Þorlákshöfn er held ég með 20% af því sem þeir áttu þegar mest var eða þegar kvótakerfið var sett á. Stokkseyri og Eyrarbakki: Ekkert þar. Og svona má rekja þetta.“

Grétar Mar er spurður hvað honum finnist um strandveiðarnar. Er það eitthvað til að jafna þetta? Ballansera þetta?

Það er til dæmis ömurlegt að þeir skuli ekki fá að veiða á sunnudögum.

„Það ballanserast ekkert þegar þú ert að tala um kannski 10-15.000 tonn. Eitthvað sem frystitogari veiðir á einu og hálfu ári. Aflinn sem er í strandveiðinni; þetta er svo lítið. Það vantar að minnsta kosti 5-6000 tonn inn í strandveiðarnar þannig að þeir hafi úthald í 48 daga yfir sumarið. En svo náttúrlega það versta við strandveiðarnar eru þessar skerðingar sem eru á þeim; það er til dæmis ömurlegt að þeir skuli ekki fá að veiða á sunnudögum því það vantar alltaf afla í fiskvinnsluna sem er án útgerðar á mánudögum.“

Það er náttúrlega hörð andstaða gegn þessu.

„Já, en stórútgerðin fer alltaf að gráta og grátkórinn er virkjaður þegar á eitthvað að breyta og gera eitthvað sem væri til bóta fyrir almenning. Það er bara það sorglega við þetta.“

 

Afskaplega döpur

Baráttumaður gegn kvótanum og baráttumaður fyrir réttindum sjómanna. Þurfti Grétar Mar aldrei að gjalda fyrir það? Var aldrei núningur? Kostaði þetta hann ekkert persónulega?

„Pottþétt. Það bitnaði á mér. Það gerði það. Og sérstaklega eftir að ég hætti sem forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins; var felldur þar. Og þá var ekki um auðugan garð að gresja hjá manni í að fá vinnu,“ segir Grétar Mar sem fór í kjölfarið á milli báta; bæði minni báta „og svo lúðuveiðar og svona utankvótaskrap; meira að segja á sæbjúgu.“

Þú tókst við af Guðjóni A. Kristjánssyni og varst í tvö ár og þá kom Árni Bjarnason og felldi þig. Það hafa verið átök.

„Nei, ekki kannski átök. Það voru bara 33 held ég með atkvæðisrétt á Faramanna- og fiskimannasambandsþinginu og hann vann mig 18-15.“

En hann er enn.

„Já, það er bara mjög slæmt fyrir sjómenn að hann skuli vera enn því að hann hefur verið handónýtur foringi og í hagsmunagæslu fyrir sína menn.“

Öll stéttarfélög sjómanna eru afskaplega döpur.

Er það Samherji?

„Ég veit það ekki. Hann kom beint frá Samherja, var stýrimaður og afleysingaskipstjóri hjá Samherja. Í fyrstu kjarasamningum sem þeir gerðu eftir að ég var settur af þá tóku þeir þátt í því að lækka skiptaprósentuna á nýjum skipum sem leiðréttist sjálfsagt aldrei. Og annað í þeim dúr sem þeir gerðu. Öll stéttarfélög sjómanna eru afskaplega döpur. Sama má segja bæði um Sjómannasambandið og eins Vélstjórafélagið.“

Hefur þá ekki tekist að lemja á þeim ef menn eru orðnir máttlausir?

„Það er í fyrsta skipti núna þegar kemur að úthlutun eða tillögur að úthlutun hjá sjávarútvegsráðherra í 20 ár sem skipstjórar koma fram á sjónarsviðið og tjá sig um þessi mál. Og þá sérstaklega tveir norðlenskir skipstjórar hjá Fisk Seafood og svo Eiríkur Jónsson á Akranesi sem er hjá Brym. Þeir eru að tala um að það sé ekkert vit í karfaúthlutuninni en í gegnum tíðina, á síðustu 20 árum, hafa skipstjórnarmenn ekkert þorað að tjá sig um þetta.“

Það er svolítið einkennilegt af því að skipstjórinn er alvaldur um borð eða svoleiðis og þetta er venjulega aðaltöffarinn um borð. Svo æmta þeir ekki né skræmta þegar komið er í land.

Þeir eru bara hræddir við útgerðarmennina.

„Nei, þeir eru á þokkalegum launum, jafnvel bara mjög góðum launum. Og þeir eru ekki að hugsa um annan stýrimann, fyrsta stýrimann eða strákana sem eru um borð. Þeir eru bara hræddir við útgerðarmennina. Það er bara þannig.“

 

Þeir fá bara order

Faðir Grétars Mars var skipstjóri og útgerðarmaður og segist hann fyrst hafa farið á norðursjóinn með föðurbróður sínum. „Maður var alinn upp við þetta. Það var alltaf verið að tala um fisk og fiskgengd og fiskerí og góða sjómenn,“ segir Grétar Mar sem var á sjó í 42 ár og skipstjóri í 34 ár.

Þetta er búið að taka allan sjarma af þessu.

Saknar þú ekkert þessara tíma?

„Ekki þegar þetta kvótakerfi var farið að virka svona eins og flestir skipstjórar fá í dag; þeir fá bara order um hvað megi veiða í næstu veiðiferð. Svo verður að fara úr þorski, ef þú ert í mokþorskveiði, til að sækja ufsa eða jafnvel karfa eða eitthvað annað. Svo er þér sagt að fara út og veiða karfa eða ufsa. Þetta er búið að taka allan sjarma af þessu.“

Grétar Mar er spurður hvað sé minnisstæðast af ferlinum.

Og svo vestur á „brjálaða hrygg“.

„Skemmtilegustu árin voru fyrir daga kvótakerfisins þegar menn máttu bara bjarga sér og reyna að ná í sem mestan afla. Ég þarf reyndar ekkert að kvarta. Ég var hjá góðum útgerðarmanni sem hét Jakob Sigurðsson í Sjófangi. Ég var á Sæborginni sem hann átti í níu ár. Var á síld á haustin og rækju á sumrin þó ég hafi ekki mikið verið á rækjunni Mér fannst þetta leiðinlegur veiðiskapur. Ég var svo aftur á netum alltaf á vertíðunum og reri þá úr Sandgerði. Mest úr Sandgerði. Maður fór náttúrlega austur fyrir land eða austur á Höfða sem við köllum, Ingólfshöfða. Og svo vestur á „Brjálaða hrygg“. Maður var út um allar trissur.“

Hvar er „Brjálaði hryggur“?

„90 mílur í Látrabjarg og 90 mílur í Snæfellsjökul.“

Þetta voru góðir tímar.

„Það var margt skemmtileg sem skeði þar. Ég var einu sinni að fiska þarna á „brjálaða hryggnum“. Það var svo mikið í netunum að við þurftum eiginlega að gilsa inn. Þá bara flutu trossurnar. Maður hélt að maður væri búinn að slíta færið því þá var bara trossan að koma upp og drekinn og allt neðan í. Við drógum sjö trossur og fengum rúm 80 tonn af slægðu ofan í lest og vorum eiginlega búnir að fylla. Ég lagði sjö trossur og ég gat ekki dregið nema þrjár fyrir daginn. Það voru einhver 40 tonn af slægðu í þrjár trossur. Ég lagði sjö og dró þrjár fyrsta daginn, dró svo þrjár annan daginn og fékk bát til að draga yfir mig eina; sjöundu trossuna.“

Þá varstu búinn að fylla og rúmlega það kannski.

„Það var eitthvað smotterí eftir. Við fórum bara suður.“

 

Ég kallaði „brot“

Grétar Mar var aflakóngur. Hvað þarf til að menn fái þessa tilfinningu eða öðlist þessa visku sem þarf til að hitta á fisk?

„Maður var með frábæran mannskap og maður kíldi á þetta af miklum krafti. Mannskapurinn hjá mér átti hverja krónu skylda sem hann hafði í hlut. Þetta var bara mikið púl og heilu vertíðirnar var þetta þannig að mannskapurinn fékk að sofa kannski þrisvar sinnum tvo og hálfan til þrjá tíma. Landstími, útstími og svo kannski í land í tvo þrjá tíma. Það var bara verið að kíla á þetta.“

Það var verið að djöflast áfram.

„Í dag er þetta auðveldara hjá mönnum. Menn eru að fiska í 15 mílna radíus frá sinni heimahöfn kannski yfir 1000 tonn. Jafnvel á mánuði.“

Grétar Mar segir að það hafi verið langskemmtilegast að vera á nótinni; síld og loðnu. „Ég var eina loðnuertíð á Berg Vigfús, sem var gamli Keflvíkingur, og svo var ég þrjú sumur á norsk-íslensku síldinni í síldarsmugunni. Svo var ég á Sæborginni nokkur haust á síld fyrir austan. Það var skemmtilegasti veiðiskapurinn.“

Bara allt á bólakaf.

Grétar Mar segist ekki hafa lent í háska en segir þó: „Ég lenti einu sinni í því í kolvitlausu veðri; suðvestan sjö átta vindstig og svo gerði hviður og þá bætti hann í. Ég fór fjóra róðra og var úr Sandgerði og út í trossurnar var alltaf beint á móti og ég var í fimm tíma út í trossur sem átti ekki að taka nema tvo og hálfan til þrjá tíma. Það bara gekk ekkert á móti veðrinu. Ég lagði trossurnar bara undan veðrinu. Bara lensaði. Sæborgin var mjög gott skip, sérstaklega á lensi. Svo einu sinni þegar ég var að leggja og þeir voru að láta seinni drekann detta þá sá ég að það var skafl fyrir aftan mig. Og allir strákarnir úti á dekki. Ég kallaði „brot“ út um gluggann. Svo kom bara fylla fram eftir dekkinu. Bara allt á bólakaf. Þeir voru nú búnir að koma sér eitthvað í var og einn fór á bak við mastrið. Svo fór ég að telja þegar fór að renna út af honum aftur. Þá vantaði mig einn. Ég náttúrlega varð skelfingu lostinn. Ég verð bara að segja eins og er. Þá hafði hann náð að skjóta sér inn í ganginn og loka dyrunum. Það var miklu fargi af manni létt þegar maður sá að þetta var í lagi. En ég fór ekki á sjó daginn eftir. Það var sams konar veður. Þetta var orðið gott.“

Það er mikil gæfa að hafa verið skipstjóri í öll þessi ár og sleppa áfallalaust.

„Já, þegar maður lítur til baka er maður voðalega montinn að hafa fiskað þetta mikið en þá er þetta það sem er gulls ígildi.“

Svo ef maður slítur af sér veiðarfæri eða slasar fólk þá er maður vitleysingur eða asni.

Menn gleyma því aldrei ef þeir missa mann.

„Nei. Það held ég ekki. Ég held að það hefði verið rosalega þungt. Það er oft svo stutt á milli hláturs og gráturs í þessu. Við erum hetjur, við róum í vitlausum veðrum og fáum einhvern afla en svo ef maður slítur af sér veiðarfæri eða slasar fólk þá er maður vitleysingur eða asni.“

Þá ertu skúrkur.

„Þá ertu skúrkur. Og það er oft svo stutt þarna á milli.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -