Hrafn Jökulsson, rithöfundur og lengi leiðtogi skákfélagsins Hróksins, greinir frá því á Facebook að hann hafi verið verið greindur með krabbamein á lokastigi. Hrafn tekur þessum tíðindum af æðruleysi. Hann skrifar:
„BEINT Í ÚRSLITALEIKINN
Ágætu vinir & vinkonur. Ég hef greinst með æxli í hálsi. Um er að ræða flöguþekjukrabbamein sem komið er á 4. stig, B. Það er „æðsta stig“ — 4. stig C er ekki til — svo ég fer beint í úrslitaleikinn.“
Hrafn segir að batalíkur séu hverfandi en þó ætlar hann að berjast fram í rauðan dauðann. „Framundan er lyfja- og geislameðferð til að halda Surtlu, litla skrímslinu mínu í skefjum. Batalíkur eru hverfandi.
Ég er þakklátur fyrir að fá tækifæri til að takast á við Surtlu. Ég bað Skapara minn fyrir löngu að láta ekki dauðann koma einsog þjóf að nóttu — fyrst skyldum við stíga saman dans.“