Hér gefum við uppskriftir að gómsætum kjúklingabollum með engifer, ferskum kryddjurtum og sætri chili-sósu sem eru tilvaldar í áramótapartíið.
Kjúklingabollur:
500 g kjúklingahakk, hægt er að kaupa kjúklingabringur eða kjúklingalæri og mauka í matvinnsluvél
1 hvítlauksgeiri, fínt saxaður
3 kafir-límónulauf, hægt er að kaupa þau frosin í asískum búðum eða þurrkuð
2 cm engifer, afhýtt og saxað fínt*
1 msk. fersk mynta, fínt skorin, auka til þess að skreyta með
1 msk. ferskur kóríander, fínt skorinn
1 tsk. sjávarsalt
½ tsk. svartur nýmalaður pipar
um 3 msk. olía til að steikja kúlurnar
Blandið öllum hráefnum vel saman í skál. Mótið kúlur úr hakkinu í höndunum og kælið í 30 mín. Hitið olíu á stórri pönnu á miðlungshita og steikið kjúklingabollurnar allan hringinn í um 10 mín. eða þar til brúnar og eldaðar í gegn.
Meðlæti með kjúklingabollum
límónubátar
sæt chili-sósa
myntulauf
Skreytið kjúklingabollurnar með ferskum myntulaufum. Gott er að kreista örlítið af límónu yfir bollurnar og dýfa þeim í sæta chili-sósu.
Umsjón / Folda Guðlaugsdóttir og Nanna Teitsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir