Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Sólveig tilbúin að láta sverfa til stáls – Elítan geti „ekki látið eins og börnin passi sig sjálf“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óhætt er að segja að það sé baráttuhugur í Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, ef marka má pistil sem hún birtir á Facebook. Þar segist hún ekki óttast komandi kjarabaráttu, því öllum sé ljóst að hennar fólk skapi verðmæti samfélagsins. Hún segir ekki kvíða kjarasamningum, því þeir séu „pólitískt tækifæri til að ná efnahagslegum árangri“.

„Ég hef ekki áhyggjur af komandi kjarabaráttu. Ég myndi kannski hafa áhyggjur ef að verka og láglaunafólk væri enn fast í því ástandi sem ríkti fyrir ekki svo löngu, þegar búið var að ákveða að „stöðugleiki“ næðist fyrst og fremst með því að „þjóðarsátt“ ríkti um að vinnuaflið fengi úthlutað nákvæmlega þeim brauðmolum sem að reiknimeistarar valdsins náðu niðurstöðu um að væru nægilega margir. En við Eflingar-fólk höfum náð raunverulegum árangri í að komast undan þessu ástandi, ástandi sem skapaðist vegna og var viðhaldið af getuleysi og áhugaleysi forystu vinnandi fólks gagnvart því að sýna metnað, dirfsku, vinna vinnuna sína. Sem er hver? Jú, að gera allt sem hægt er til að tryggja að máttur verka og láglaunafólks, og geta, séu sem allra mest þegar að því kemur að semja um það sem mestu máli skiptir; hvað fólk fær fyrir að selja aðgang að vinnuaflinu sínu, hvaða lífskjör boðið er upp á í samfélaginu,“ segir Sólveig.

Hún segir fyrri forystu ekki hafa haft áhuga á öðru en að viðhalda óbreyttu ástandi. „Forysta verka og láglaunafólks hér á höfuðborgarsvæðinu hafði ekki áhuga á þessu verkefni. Hún hafði áhuga á því að viðhalda óbreyttu ástandi, fölskum stöðugleika og því að taka „samtalið“ við valdastéttina, framhjá vinnuaflinu. Hún hafði áhuga á að tilheyra stétt stjóranna, ekki því að vera í fylkingarbrjósti raunverulegrar og árangursríkrar stéttabaráttu. Hún hafði áhuga á stéttasamvinnu, ekki stéttabaráttu,“ segir Sólveig.

Hún segir elítu landsins ekki geta látið eins og gólfin skúri sig sjálf eða börnin passi sig sjálf. „Raunveruleg stéttabarátta byggir upp pólitískan mátt vinnuaflsins svo að hann sé í samræmi við grundvallar-mikilvægi verkafólks í þjóðhagslegri verðmætaframleiðslu. Það gerir hún með því að kenna okkur samstöðu og dirfsku, og með því að sýna okkur hvað ber árangur. Hún gerir okkur ljóst að ef við erum óvirk og ósýnileg uppskerum við ekkert nema meiri jaðarsetningu, meiri ósýnileika, sífellt minni völd, þangað til að við endum á þeim stað að þau eru engin. Hún kennir okkur að ef við erum virk og sýnileg getum við raunverulega skapað ástand þar sem að valdastéttin getur einfaldlega ekki lengur látið eins og við séum ekki til. Getur ekki látið eins og börnin passi sig sjálf, vegirnir leggi sig sjálfir, húsin byggi sig sjálf, matvaran framleiði sig sjálf, kaffihúsin og hótelin reki sig sjálf. Gólfin skúri sig sjálf. Getur ekki látið eins og hinn efnislegi veruleiki þjóðfélags okkar sé ekkert annað en sjálfsögð niðurstaða afburða hæfileika þeirra til að vera einhverskonar meritókratísk yfirstétt (!).“

Sólveig segir raunverulega sigra innan seilingar. „Raunveruleg stéttabarátta getur skapað ástand þar sem að öllum verður það algjörlega augljóst hver vinna vinnuna sem skapar verðmætin og hver vinna vinnuna sem gerir verðmætasköpunina mögulega. Það er tilgangur raunverulegrar stéttabaráttu. Hún skapar ástand þar sem að grundvallarmikilvægi vinnu verkafólks í þjóðfélaginu getur engum dulist og þau sem viðurkenna ekki grundvallarmikilvægið verða sjálfum sér til skammar með því að opinbera heimsku sína og/eða óheiðarleika. Hún skapar ástand þar sem að raunverulegir sigrar eru mögulegir.“

Hún segist nú þegar hafa náð árangri, sem aðrir innan verkalýðshreyfingarinnar vildu gefa eftir. „Við, félagsfólk Eflingar, höfum háð raunverulega stéttabaráttu. Og við höfum náð raunverulegum árangri. Eitt dæmi um þann árangur er sú staðreynd að það var staðfesta Eflingar sem stöðvaði áhlaup valdastéttarinnar á kjarasamningsbundnar hækkanir vinnuaflsins í Covid-faraldrinum. Valdastéttin taldi víst að hægt væri að fá verkalýðshreyfinguna til að gefa eftir hækkanirnar, enda sýndi reynslan úr Hruninu að fátt var auðveldara en að fá verkalýðs-stjórana til að gefa eftir hagsmuni vinnuaflsins (allt í nafni stöðugleikans). Innan hreyfingarinnar var sannarlega vilji til þess að kippa hækkununum úr sambandi.“

- Auglýsing -

Hún segir muninn á sér og öðrum að hún er tilbúin til að láta sverfa til stáls. „En Efling sagði Nei, kemur ekki til greina. Hversvegna virkaði Nei-ið okkar? Vegna þess að við höfðum sýnt að við stóðum saman, að við sjálf skildum grundvallar-mikilvægi okkar og að við vorum tilbúin til að láta sverfa til stáls, ef að þess var krafist. Vegna þess að við vorum búin að byggja upp nægilega mikinn mátt og getu; vorum ekki óvirk og ósýnileg heldur fær um að senda skýr pólitísk skilaboð. Vorum fær um að senda skilaboð um að dagar stéttasamvinnu á kostnað verkafólks væru liðnir, að þau sem réðust að okkur þyrftu þá að vera tilbúin í raunveruleg og hatrömm átök.“

Hún segist því ekki kvíða kjarasamningum. „Ég kvíði ekki komandi kjarabaráttu. Hún verður raunveruleg stéttabarátta. Og félagsfólks Eflingar mun mæta til leiks með allra mikilvægustu vitneskju vinnuaflsins í farteskinu: Vinna okkar skapar verðmæti samfélagsins og gerir sköpun þeirra möguleg með því að halda uppi umönnunarkerfunum. Fólk sem veit þetta, fólk sem skilur að það er ómissandi að öllu leiti þarf ekki að kvíða. Það mætir stjórum þessa lands hnarreist og segir: Við sættum okkur ekki við að vellystingar ykkar séu á kostnað okkar. Við krefjumst réttlætis og við krefjumst þess að okkar hagsmunir séu settir í fyrsta sæti.

Sá tími er liðinn að Eflingar-fólk kvíði kjarasamningum. Fyrir okkur eru þeir pólitískt tækifæri til að ná efnahagslegum árangri. Og er það ekki frekar augljóst um leið og þið hugsið um það?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -