Einbýlishús við Huldubraut 46 í Kópavogi hefur hækkað í verði um ríflega 200 milljónir króna á einungis sjö árum. Uppsett kaupverð fyrir hana er nú 297 milljónir króna en við síðustu sölu, árið 2015, var eignin seld á 86 milljónir króna.
Fréttablaðið greinir frá þessu. Þessi gífurlega hækkun í verði á svo stuttum tíma er að nokkru leyti lýsandi fyrir ástandið á fasteignamarkaðnum. Húsið hefur verið endurnýjað en langflestir myndu varla segja breytingarnar 200 milljón króna virði.
Fermetraverð eignarinnar hefur farið frá 260.290 krónum í 897.281 krónur á þessum örfáu árum. Rétt er að taka fram að fasteignamat húsins er tæplega 130 milljónir en seljendur segja það muni hækka um ríflega 40 milljónir króna á næsta ári, að sögn Fréttablaðsins.