Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og unnusta hans Carrie Symonds eiga von á barni í sumar. Symonds greindi frá tíðindunum á Instagram og sagði einnig frá því að þau hefðu trúlofað sig fyrir áramót.
Symonds hefur búið með Johnson í Downingstræti 10 frá því hann tók við embætti í júlí sl. Hún mun vera fyrsti ógifti maki forsætisráðherra í sögu Bretlands. Þá verður Johnson fyrsti forsætisráðherrann til að ganga í hjónaband í embætti í 250 ár og sá fyrsti til að skilja frá 1769 en skilnaður hans við Marina Wheeler er enn ófrágengin.
Einkalíf Johnson hefur oftsinnis ratað í fjölmiðla en hann var m.a. settur í skammakrókinn innan Íhaldsflokksins árið 2004 eftir meint ástarsamband við blaðamanninn Petronella Wyatt. Þá er vitað að hann átti dóttur utan hjónabands árið 2009, þegar hann var borgarstjóri Lundúna.
Það sem er ekki vitað er nákvæmlegur fjöldi barna Johnson en hann er talinn eiga a.m.k. fimm börn með tveimur konum; Wheeler og listráðgjafanum Helen Macintyre. Sjálfur hefur hann neitað að tjá sig um börnin sín en gengið var á hann í nóvember sl. eftir að í ljós kom að hann hafði talað um einstæðar mæður sem „óábyrgar“.
„Ég elska börnin mín mjög mikið en þau eru ekki í framboði og því ætla ég ekki að tjá mig um þau,“ sagði hann í útvarpsviðtali.