Söng- og leikkonan Jennifer Lopez gæti þurft að punga út 22 milljónum fyrir að birta mynd af sjálfri sér á Instagram.
Ljósmyndarinn Steve Sands hefur lögsótt Lopez vegna ljósmyndar sem hún birti á Instagram árið 2017. Hann fer fram á 150.000 dollara, sem gerir um 22 milljónir króna, fyrir höfundarréttarbrot. E! News greinir frá þessu.
Lopez deildi umræddri mynd sem Sands tók af henni með fylgjendum sínum á Instagram en 119 milljónir manna fylgja henni þar. Myndin var tekin af henni á tökustað við gerð þáttanna Shades of Blue og 656 þúsund manns settu „like“ við myndina á sínum tíma. Lopez hefur nú eytt myndinni sem um ræðir.
Lögmaður Sands segir þetta vera enn eitt dæmið um frægt fólk sem notar ljósmyndir í leyfisleysi til að kynna sjálfa sig á samfélagsmiðlum.