Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Séra Auður Eir segir ásakanirnar ósannar: „Fullkomlega, algjörlega og óafturkallanlega viss“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

​​Blaðamaður hitti séra Auði Eiri Vilhjálmsdóttur til þess að falast eftir svörum hennar við þeim ásökunum sem á hana, Bjarg og starfskonur heimilisins hafa verið bornar í gegnum tíðina. Meðal þeirra ásakana eru þær sem koma fram í viðtali við Sonju Ingvadóttur í nýjasta tölublaði Mannlífs, en hún er ein þeirra sem vistuð var á Bjargi á sínum tíma.

Hér verður stiklað á stóru í svörum séra Auðar Eirar en viðtalið við hana verður birt í heild sinni á vefnum innan tíðar.

 

„Áreiðanlega, fullkomlega og óafturkallanlega viss“

Í gegnum tíðina hafa komið fram ásakanir um andlegt, líkamlegt og í sumum tilfellum kynferðislegt ofbeldi gegn stúlkum á Bjargi, þar sem tungum var jafnvel sagt hafa verið þröngvað upp í munn þeirra.

Blaðamaður spyr séra Auði Eiri hvernig hún svari því.

„Ég segi að ég sé áreiðanlega, fullkomlega og óafturkallanlega sannfærð um að þetta sé uppspuni.“

- Auglýsing -

Hún segist algjörlega viss í sinni sök og talar um ósannsögli sem hugsanlega geti lagt líf fólks í rúst.

Séra Auður Eir spyr hvað manneskja eigi að gera sem sé ásökuð um brot. „Hvað á að gera með svona ásakanir?“

Blaðamaður spyr hvað séra Auði Eiri finnist sjálfri.

- Auglýsing -

„Svo ég tali nú bara um þetta mál þá er ég fullkomlega, algjörlega og óafturkallanlega viss um að þessar konur hafa aldrei beitt þessar stúlkur kynferðislegri áreitni. Þetta eru hryllilegustu ásakanirnar vegna þess að kynferðisofbeldi leggur auðvitað líf fólks í rúst. En ásakanir um kynferðisofbeldi gera það líka.“

Aðspurð segist séra Auður Eir ekki kannast við nokkurs konar ofbeldi innan Hjálpræðishersins.

„Alls ekki. Því fer öldungis fjarri. Nú er ég svona jafn viss og ég var um kynferðisáreitnina. Nei, öldungis ekki.“

Sonja segir í viðtali sínu að séra Auður Eir hafi sagt að það ætti að ala stúlkurnar á Bjargi í þrælsótta. Þegar það er nefnt við séra Auði Eiri segist hún ekki hafa sagt það.

„Aldrei nokkurn tíma. Og ég hef ekki hugsað það.“

 

Kannast ekki við einangrun né hótanir

Sonja, ásamt öðrum stúlkum, hefur lýst vistinni á Upptökuheimilinu sem afar slæmri og lítilsvirðandi, þar sem þær voru hafðar í einangrun svo dögum skipti, með ekkert við að vera. Þær, sem og starfskonur Upptökuheimilisins hafa sagt starfskonur Bjargs hafa óskað eftir slíkri einangrun, þar á meðal séra Auði Eiri.

„Já, þær verða bara að gera það og tala við Upptökuheimilið. Ég held það bara. En þegar þær eru þar, þá eru þær á vegum Upptökuheimilisins.“ Hún segist aldrei hafa sent stúlkur í einangrun.

Þegar Sonja yfirgaf Bjarg segir hún séra Auði Eiri hafa hótað henni því að ef hún yrði ófrísk og eignaðist barn, yrði hún send í fangelsi til 25 ára aldurs.

Séra Auður Eir gengst ekki við þessu.

„Ég hef bara aldrei sagt þetta. Aldrei.“

Séra Auður Eir segir það ekki rétt að stúlka hafi verið lokuð inni á Bjargi í níu mánuði eftir að hún var orðin sjálfráða, líkt og Sonja hefur lýst.

„Við ákveðum ekki hverjir áttu að vera á Bjargi og hverjir ekki. Það voru barnaverndarnefndirnar. Svo það er algjörlega útilokað að við höfum ráðstafað einni eða annarri stúlku. Barnaverndarnefndirnar ákváðu hvenær þær komu og hvenær þær fóru.“

 

Þetta brot úr viðtali við séra Auði Eiri er hluti af umfjöllun um stúlknaheimilið Bjarg, sem má finna í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -