Þriðjudagur 24. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Rokk í Strákavík

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur: Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir

 

Fyrst skulum við hafa eitt á hreinu – Þetta er ekki rifrildi – Þetta er umræða og þörf umræða. Allt sem skrifað er hér fyrir neðan er mín upplifun á tónlistarbransanum um allt land, sem ég hef verið í og reynt að vera í frá 12 ára aldri.

Ég skil svo fullkomlega að það er miklu minna vesen að hringja í vini sína og halda tónleika. Ég er alin upp í viðburðarfjölskyldu og hef heyrt svo oft að það sé „ekkert vesen“ að hringja í hina og þessa og henda þessu upp á svið og ekkert vesen. Ég er líka alin upp við það að strákar fara í bílskúrsbönd og verða kúl en þegar stelpur ætla í tónlist verða þær að læra það. Læra að syngja, læra á píanó og læra á gítar, ekki bara gera eitthvað og finna út úr því. Það eru svo miklu meiri kröfur á það að stelpur séu fullkomnar þegar þær koma fram, að þær klikki ekki og að þær þurfi að vera búnar að æfa sig og undirbúa eitthvað stórkostlegt, að hafa einhvern tilgang.

Ég hef alltaf verið stelpa í strákaheimi. Ég á þrjá eldri bræður, alin upp í sveit og hef verið í öllum þeim störfum sem strákar hafa verið í, hef verið áreitt á börum heima, passað mig á þeim sem þarf að passa sig á,  hef alltaf átt fleiri strákavini en stelpuvini og er mjög nálægt því að hafa meistaragráðu í að vera ekki með „vesen“. Að hafa vesen er að vera með tilfinningar, byrja viðkvæmar umræður, segja sína skoðun, spyrja af hverju og almennt bara efast um það sem strákar segja. – Mín upplifun.

Í menntaskóla var tónlistarklúbburinn strákaklúbbur. Söngkonur voru vesen, með leiðinleg lög oftast og voru með svo miklar kröfur á meðan strákar sungu Korn, flippuðu upp á sviði og voru bestir. Okkur var kennt að vera litlar, ekki frekar, velja skemmtileg lög fyrir bandið og vera fullkomnar upp á sviði. Okkur var ekki hrósað, nema af hvor annarri, það er að segja ef það var ekki búið að etja okkur upp á móti hvor annarri. Strákar klúðruðu upp á sviði og voru krútt. Stelpur klúðruðu upp á sviði og fengu að horfa á það aftur og aftur til að verða fullkomnari. Það er og hefur alltaf verið meiri krafa á því að ef við stelpur förum upp á svið þá verður það að vera fullkomið. Það er ein ástæða þess að við þorum ekki eða neitum stundum giggum. Við þorum ekki að vera ófullkomnar. – Mín upplifun.

- Auglýsing -

Það er vesen að þurfa að tékka hvort Kolrassa Krókríðandi sé enn starfandi. Það er vesen að spyrja einhvern tónlistarnörd, tónlistarkonu eða einhvern sem veit eitthvað hvort að þau viti um eitthvað band. Það er vesen þegar þú ert ekki með númerið hjá umbanum, söngkonunni eða hljómsveitarmeðlim til að tékka á því. Ég skil það fullkomlega. En það er samt alveg hægt og það er það sem við þurfum öll að finna saman. Nennuna í að skoða eitthvað annað en það sem er beint fyrir framan okkur eða í símanum hjá okkur. Nennuna að hlusta á nýja tónlist ef við ætlum að henda í tónleika. Nennuna að taka samtalið.

Vandamálið er ekki allt „þið þurfið að vera duglegri, bentu mér á hljómsveitir, hverjar eru starfandi“ ruglið. Vandamálið er að það þarf að stoppa og hlusta. Strákar, þið eruð með svo allt aðra upplifun á bransanum en við af því þið einfaldlega eruð ekki stelpur. Í staðinn fyrir að fara í vörn og taka eitthvað samtal eða rökræður sem nær engum tilgangi væri geggjað ef þið mynduð bara hlusta. Þetta er ekki svart og hvítt, þetta er ekki vesen, þetta er upplifun sem þarf að laga fyrir okkur og komandi kynslóðir. 

Þetta er kallaklíkubransi með gömul og úrelt gildi. Það er alveg staðreynd. Við vitum að þið viljið gera betur og saman getum við bara hjálpast að í staðinn fyrir að fara alltaf í vörn við hvort annað og agnúast út í eitthvað sem skiptir engu máli lengur. Það er enginn að fara að hafa meira rétt fyrir sér í þessari umræðu, það er staðreynd að við höfum verið með hliðarvind eða mótbyr síðan að við byrjuðum í tónlist – Svona er þetta er bara ekki gild afsökun lengur. – Mín upplifun.

- Auglýsing -

Ég ætla ekki að telja hversu oft bransinn hefur verið hrútskýrður fyrir mér og „svona er þetta bara“ komið í andlitið á mér. Ég hef heyrt þetta allt saman síðan ég var lítil. Ég þurfi bara að læra meira, kunna á hljóðfæri, koma mér á framfæri, vera í alvöru vinnu og allt þar á milli. Ég hef lifað minn tónlistarferil hingað til í að gera mig minni, vera ekki með vesen, segja alltaf að ég sé systir bróður míns og þannig komist ég áfram, ekki á mínum verðleikum og tónlist. Það þurfti að ég flutti til Danmerkur til að fá hrós fyrir öfluga rödd og mikinn kraft. Hér heima var ég bara of hávær og syngja „fallega“, af því að með því að syngja með minni háværu rödd væri ég nú bara að garga og taka of mikið pláss. – Mín upplifun.

Ég er rokkari. Ég sem rokktónlist með Stebba vini mínum og rokka á sviði með stórkostlegri hljómsveit sem er þétt rokkhljómsveit. Ég er búin að plögga og prómóta eins og vindurinn hér heima, pönkast í útvarpsfólki og er mun þrjóskari en margar aðrar í bransanum, sem oft gefast upp eftir fyrstu tölvupósta sem ekki er svarað. Akkúrat núna er ég mest spiluð í Finnlandi og það alveg sjúklega mikið. Það er rokk. Málið er bara að við getum alveg verið hörkuduglegar, það þarf samt að hleypa okkur inn í bransann, upp á svið og inn í samtalið svo að við getum farið að vera „duglegri“.

Ég þakka þeim sem lásu og vona að við getum hætt að rökræða eða rífast og farið að gera eitthvað saman.

Hér er síðan playlisti með rokkurum – svona ef þið komið með „já en það er engin kona að rokka“ tuðið. https://open.spotify.com/playlist/3H0nhwAZ3MWiM8iSw12cyX…

 

Pistlahöfundur er tónlistarkona, viðburðastýra, lagahöfundur, Music Coach og CVT Raddþjálfi.



Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -