Alnæmið hefur aldrei verið gert upp í íslensku samfélagi, segir Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndagerðarkona. Hún segir söguna komna í undarlegan hring; orðin hommi og lesbía séu að hverfa. Það sé mikilvægt að þekkja fortíðina og ekki síður að vera undirbúinn fyrir bakslag.
„Nei, ég er ekki hinsegin,“ svarar Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndagerðarkona eftir að hafa starað íhugul á gólfið í stutta stund. Hrafnhildur prýðir forsíðu nýjasta Mannlífs.
Við sitjum í huggulegheitum á vinnustofu Hrafnhildar í Gufunesi, þar sem hún leggur lokahönd á síðustu þættina í þáttaröðinni Svona fólk, sögu homma og lesbía á Íslandi. Eða réttara sagt, sögu samkynhneigðra frá því að þeir fóru að stíga fyrstu skrefin út úr skápnum.
Þættirnir eru á dagskrá Ríkisútvarpsins á sunnudögum og hafa fengið afar góðar viðtökur. Þeir eru afrakstur 27 ára viðleitni til að skrásetja og varðveita samtímaheimildir um baráttu homma og lesbía; erfiðleikana, átökin og sigrana. En þar sem Hrafnhildur hefur alltaf verið opinská um afstöðu sína til orðsins hinsegin, þá liggur beinast við að spyrja hvort heitið Svona fólk sé uppreisn gegn hinsegin. „Nei,“ svarar hún, „hinsegin kemur síðar til sögunnar í mínum tímaramma.“ Titillinn Svona fólk varð til á tíunda áratugnum sem heiti á því sem átti upphaflega að verða mynd í fullri lengd, segir hún. „En ég upplifi sjálfa mig ekki sem hinsegin og mér finnst það vera útúrsnúningur; það lýsir ekki minni upplifun.“
Það er í raun táknrænt að hefja samtal okkar á smávegis inngangi um orðanotkun en snemma í þáttunum er sagt frá því þegar talsmenn Samtakanna ´78 fóru með auglýsingu til RÚV og horfðu á þegar starfsmaður strikaði yfir orðin hommi og lesbía og setti kynvillingar í staðinn. Það tók tíma og barning að fá það í gegn að nota hommi og lesbía en nú segir Hrafnhildur þau aftur orðin útlæg. Nú sé allt hinsegin, hjá Samtökunum ´78 „og ég þurfti að leiðrétta RÚV á dögunum. Við erum komin í mjög undarlegan hring,“ segir hún og hristir hausinn.
„Það er ekki gott að búa í angist“
Sagan sem sögð er í þáttunum nær aftur til byrjun áttunda áratugarins en það var alnæmisfaraldurinn sem varð til þess að Hrafnhildur hóf að taka upp viðtöl og viðburði
„Fyrsta viðtalið sem ég tók, 1992, var við góðan vin minn, Björn Braga Björnsson, Bjössa, og hann var að lýsa fyrir mér aðstæðum sínum. Þá var um líf og dauða að tefla því að hann var dáinn tveimur árum seinna. Þannig að okkur lá á að skrá og varðveita harða reynslu,“ útskýrir Hrafnhildur.
Samkynhneigðar ástir hafa auðvitað alltaf verið til en Hrafnhildur segir að undir lok sjöunda áratugarins hafi kynlífsbylting hippanna gefið tilefni til að halda að umburðarlyndi væri að aukast. Það markaði tímamót þegar hommar, lesbíur og dragdrottningar í New York gerðu uppreisn á götum úti sumarið 1969, sem kennd er við Stonewall. Þá urðu straumhvörf í sögunni. Vandinn byrjar þegar fólk fór að vilja skilgreina sig og lifa lífinu opinberlega.
„Þetta var svo rosalegt mál og þær svo agaðar af þögninni að það hálfa hefði verið nóg.“
„Það er ekki gott að lifa í angist. Fólk vill fá að deila gleði sinni og sorgum og það er kannski það sem er sársaukafullast að horfa á, til dæmis söguna sem hún Nanna segir í fyrsta þætti. Þær ástkonurnar voru algjörlega í felum og það sá ég meðal kvenna sem ég hitti hér á landi upp úr 1980. Þetta var svo rosalegt mál og þær svo agaðar af þögninni að það hálfa hefði verið nóg,“ segir Hrafnhildur.
Nanna Úlfsdóttir þjóðfélagsfræðingur lýsir því mjög átakanlega í þáttunum hvernig það var að verða ástfangin af konu þegar hún var um tvítugt: „Allt er þetta í felum. Og í þögninni. Og það getur hver maður gert sér í hugarlund hvert þrek maður þarf að hafa til að leyna sínum fegurstu, dýpstu og sterkustu tilfinningum án þess að mega nokkurn tíma, raunverulega, láta þær í ljósi.“
„Þetta líf hugnaðist mér ekki,“ segir Hrafnhildur.
Hún, líkt og fleiri hommar og lesbíur á þessum tíma, hélt utan.
Hrafnhildur hafði vitað frá unga aldri að hún var „eitthvað öðruvísi“ en þegar hún kom út úr skápnum mætti hún helst fordómum í fótboltanum. Fjölskyldur tóku því misvel þegar nákomnir stigu það erfiða skref að opinbera kynhneigð sína og þá mættu samkynhneigðir miklum fordómum í samfélaginu; var sagt upp bæði húsnæði og atvinnu. Í þáttunum er ekki mikið gert úr ofbeldinu en það var sannarlega til staðar, segir Hrafnhildur, og stundum kostuðu fordómarnir menn lífið. Hún nefnir atvik þar sem maður var ginntur ofan í kjallara og hellt yfir hann saltpétri. Hann lést viku síðar.
Lestu viðtalið við Hrafnhildi í heild sinni í Mannlífi.
Myndir / Unnur Magna
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Yves Sant Laurent á Íslandi