Aldís Hafsteinsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Hveragerðis og nú sveitarstjóri Hrunamannahrepps, fékk sex mánaða biðlaun og aksturstyrk frá Hveragerði þegar hún hætti sem bæjarstjóri í byrjun sumars. Samtals voru þetta um 17 milljónir króna sem Aldís fékk, þrátt fyrir að hún væri komin með nýtt starf.
Fréttablaðið greinir frá þessu og vísar í fundargerð bæjarráðs. Kostnaður Hveragerðis vegna biðlauna hennar var ríflega 20 milljónir króna.
Nýr bæjarstjóri, Geir Sveinsson, getur þó ekki átt von á sömu gjafmildi þegar hann lýkur störfum, í það minnsta ef hann fær annað starf.
Samkvæmt bókun þótti þetta fyrirkomulag við launagreiðslur til Aldísar óeðlilegt. Því var þessu breytt við gerð ráðningarsamnings við nýjan bæjarstjóra.