Ökumaður á flótta undan lögreglu lenti í árekstri við Hvalfjarðargöngin á áttunda tímanum í kvöld. Fréttablaðið greinir frá því að maðurinn hafi lent í árekstri sem varð til þess að bíll hans flaug upp í loftið. Maðurinn er sagður hafa kastast úr bílnum og lent um 10 metrum frá slysstað.
Fréttablaðið hefur þetta eftir eiginmanni sjónarvotts, sem var á leið úr bænum í strætisvagni.
„Hún fékk það staðfest að þetta var eftirför lögreglu sem endaði þannig að sá sem var að reyna að komast undan lenti í árekstri sem til kom eftir að hann ók mjög óvarlega. Þá flaug bíllinn upp í loftið. Í þokkabót þá kastaðist maðurinn út úr bílnum á meðan hann var í loftinu. Alveg einhverja tíu metra,“ hefur Fréttablaðið eftir manninum.
Lögregla verst allra fregna af málinu.