Afmælisbarn dagsins er ein allra besta knattspyrnukona sem Ísland hefur alið, Margrét Lára Viðarsdóttir. Eru nú liðin 36 ár frá fæðingu hennar.
Margrét Lára er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum en hún hóf knattspyrnuferilinn einungis 15 ára gömul með ÍBV í úrvalsdeild kvenna. Nokkru síðar fór hún yfir í Val þar sem hún vann fjóra Íslandsmeistaratitla. Var hún algjör markamaskína en á ferlinum skoraði hún yfir 200 mörk í úrvarsdeild kvenna á Íslandi en fimm sinnum varð hún markahæst í deildinni. Þá skoraði hún 79 mörk í 124 leikjum með landsliðinu.
Mannlíf heyrði í afmælisbarninu og spurði hvort og þá hvernig eigi að halda upp á afmælið.
„Afmælisdagurinn verður eitthvað lágstemmdur að þessu sinni. Rólegheit heima með strákunum mínum fjórum, borða góðan mat og hafa það huggulegt, verður líklegast uppskriftin að þessu sinni,“ sagði afmælisbarnið í samtali við Mannlíf.
En hvað er svo framundan, bæði í persónulega lífinu og í starfi?
„Fullt á döfinni á næstunni hjá okkur fjölskyldunni. Þjóðhátíð á næsta leiti sem er alltaf eitt af hápunktum ársins hjá okkur fjölskyldunni, síðan verður farið eitthvað í frí í ágúst mögulega elta veðrið og kíkt til Svíþjóðar til að taka þátt í einu stykki Ironman. Síðan erum við að stofna nýtt fyrirtæki sem heitir Heil heilsumiðstöð og mun það opna formlega í september byrjun. Svo má ekki gleyma því að enski boltinn er að fara á fullt eftir Verslunarmannahelgi. Alltaf ákveðin spenna sem fylgir því. Þannig að það eru mjög spennandi, krefjandi en skemmtilegir tímar framundan, ekki spurning.“
Mannlíf óskar knattspyrnugoðinu til hamingju með afmælið!