Haturspóstur beið hjónanna Péturs og Margrétar er þau komu heim til sín á föstudaginn var. Pétur segir þetta sýna að baráttunni er ekki enn lokið.
Pétur G. Markan biskupsritari birti í dag færslu á Facebook þar sem hann segir frá hatursfullu bréfi sem beið hans og konu hans er þau komu heim til sín á föstudaginn. Bréfið var stílað á þau bæði og var troðfullt af fordómum og hatri. Pétur gaf Mannlífi góðfúslegt leyfi fyrir umfjöllunina um færsluna en áréttaði að barátta hinsegin samfélagsins eigi ekki að snúast um þau og því vildi hann engu bæta við færsluna.
„Þetta bréf beið okkar í bréfalúgunni heima föstudaginn 22. júli. Kom með öðrum pósti og satt best að segja hafði ekkert sérstakt yfirbragð á sér. Umslagið stílað á okkur saman, póststimplað í Reykjavík.