Laugardagur 23. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Stríðshörmungar og sprunginn magi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífshlaup Kristjáns Guðlaugssonar hefur verið viðburðaríkara en flestra Íslendinga. Lengst af bjó hann í Noregi og starfaði við blaðamennsku og heimsótti m.a. stríðshrjáð svæði og varð vitni að ógnum sem flestir hafa aðeins heyrt fréttir af að eigi sér stað. Nýlega gaf hann út ljóðabókina Ullin brók og hangið kjöt, en þar er að finna safn ljóða frá ýmsum tímabilum ævi hans og þar endurspeglast minningar bæði sárar og hlýjar.

 

Þórbergur Þórðarson segir í Bréfi til Láru að sá sem ekki verði sósíalisti af að kynna sér stjórnmál sé fáviti. Ertu kannski sammála honum? „Já, ég er hjartanlega sammála Þórbergi,“ segir Kristján og brosir en hann er meðal þeirra sem rætt er við í heimildamyndinni Bráðum verður bylting eftir Hjálmtý Heiðdal. Þar er telft saman tveimur byltingarkenndum atburðum er settu svip á íslenskt samfélag árið 1970, annar var er þingeyskir bændur sprengdu upp stífluna í Laxá í Aðaldal en hinn var taka sendiráðs Íslands í Stokkhólmi. Ellefu íslenskir námsmenn fóru inn í sendiráðið í 20. apríl 1970 og drógu rauðan fána að húni og lýstu yfir að sósíalísk bylting á Íslandi væri nauðsyn. Kristján var þeirra á meðal. Hvað gekk ykkur til?

„Hér á Íslandi var mikil óðaverðbólga en námslánin héldu sér. Það varð því sífellt erfiðara fyrir námsfólk að lifa af lánunum vegna þess peningarnir urðu minna og minna virði. Það varð til hreyfing meðal námsmanna sérstaklega á Norðurlöndum sem beindist að því að laga þessi mál. Úr varð að ákveðin var setumótstaða eða fólk ætlaði að setjast niður í sendiráðunum til að mótmæla. En við fórum aðeins lengra því við vorum svo róttækir.

Í stað þess að setjast niður fórum við inn og hentum sendiráðsritaranum út. Við tókum yfir sendiráðið.

Þetta varaði reyndar ekki nema tvo tíma og lögreglan kom og tók okkur. Hún vissi ekkert hvað hún átti að gera við okkur en við sátum inni í einhverja fjóra eða fimm tíma. Sendiherrann óskaði ekki eftir að neinir eftirmálar yrðu og bað lögregluna að láta okkur fara.“

Skorinn upp á tréborði í Kína

Hann brosir og það er ekki alveg laust við að glampi kvikni í augum byltingarsinnans við að rifja þetta upp. Á þessum tíma ríkti raunar mikill frelsis- og umbreytingaandi um alla Evrópu. Vorið í Prag átti sér stað árið 1968 og lauk með innrás Sovétmanna, stúdentar mótmæltu í París og hin svokallað 1968 hreyfing hafði gríðarleg áhrif meðal ungs fólks um allan heim. Voruð þið innblásnir af því öllu? „Já, við vorum það og sluppum með skrekkinn,“ heldur Kristján áfram. „Eftir þetta flutti ég til Lundar og nam kínversku og kínverska sagnfræði. Maður fær hins vegar enga vinnu við það. Mig langaði að kynnast kínverskum kommúnisma, sögu landsins og læra tungumálið. Ég fór svo til Kína og var þar í átta mánuði.

- Auglýsing -

 

Þar lenti ég í að maginn á mér sprakk. Ég var tekinn og bundinn niður á tréborði og skorinn upp með acupunktur.

Það leið náttúrlega bara yfir mig um leið og þeir stungu  hnífnum í mig. Þetta voru frábærir læknar engu að síður og gerðu allt rétt.

Það þurfti að taka burtu þrjáfjórðu hluta magans. Upp úr þessu skildi ég við þáverandi konu mína og fór til Noregs, kynntist þar konu sem ég giftist seinna og við bjuggum saman í þrjátíu ár. Stóran hluta þess tíma starfaði ég sem blaðamaður og var fréttastjóri á dagblaði í Stavangri.“

- Auglýsing -
Ljóðabók Kristjáns.

Þótt friður hafi alla tíð ríkt á Norðurlöndunum voru víða umbrot á þessum árum. Þú kynntist því var það ekki? „Já, ég fékk leyfi frá ritstjóranum til að fara til Júgóslavíu þegar stríðið var þar. Ég var í Dubrovnik og þurfti að ganga milli tveggja hótela, yfir brú sem þar var og hún var sprengd svo ég datt niður sjö metra, braut á mér bakið á tveimur stöðum og báða ökklana. Lá hálfan mánuð í kjallara sjúkrahússins í Dubrovnik þar til keyrt var með mig á sendiferðabíl með palli upp til Lieb þaðan sem hægt var að fljúga. Ég á þær minjar frá Júgóslavíu enda er ég heiðursborgari í Dubrovnik. Ég skrifaði mikið um stríðið og um það sem gerðist í borginni. Þeir mátu það svo mikils að þeir gerðu mig að heiðursborgara.“

Pakkaði látnu barni í dagblöð

En hvernig var fyrir mann ofan af Íslandi, lengst af búsettan á Norðurlöndum, þekkjandi ekki annað en frið og að mestu saklausan gagnvart ofbeldinu að koma inn í svona aðstæður? „Alveg hrikalegt,“ segir Kristján. „Ég fór líka í kúrdísku héröðin. Var að læra tyrknesku í Ankara um tíma og fór þaðan með rútu inn í Írak meðan stríðið geisaði þar. Það var alveg hörmulegt. Þeir skutu nú á okkur landamæraverðirnir og þá var ekki annað en að kasta sér niður í drulluna og vona að maður lifði af.

Ég man sérstaklega eftir konu sem ég hitti þar. Hún kom gangandi á móti mér með barnið sitt dáið af hungri. Ég hjálpaði henni að pakka því inn í dagblað og grafa það.

Svona atriði sá ég á hverjum degi meðan ég dvaldi þarna. Ég var þarna bara í tvær vikur, enda mikill matarskortur og ég vildi ekki þiggja mat af þessu fólki. Hafði raunar litla lyst sjálfur. Mér þótti þessi reynsla engu að síður dýrmæt og skrifaði mikið um Kúrdistan og kúrdísku héröðin. Ég á marga kúrdíska vini úti í Noregi. En svo tekur allt enda. Það þarf að skipta um fréttastjóra. Þeir verða gamlir og þreyttir og ég var búinn að vera það lengi að ritstjórinn minn bað mig að víkja. Ég gerði það fúslega og vann sem venjulegur blaðamaður í fimm ár.“

Viðtalið í heild er að finna í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Unnur Magna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -