Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

„Við mæðgurnar ætlum heim saman“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sólrún Alda Waldorff og Rahmon Anvarov slösuðust alvarlega í bruna í kjallaraíbúð í Mávahlíð í Reykjavík aðfaranótt miðvikudagsins 23. október. Sú ákvörðun var tekin vegna áverka Sólrúnar Öldu að flytja hana á sjúkrahús erlendis og er ljóst að langt bataferli er fram undan hjá unga parinu.

Þórunn Alda Gylfadóttir, móðir Sólrúnar Öldu, hefur verið hjá dóttur sinni undanfarinn mánuð. Í viðtali við Mannlíf segir Þórunn Alda að reykskynjari hefði getað bjargað öllu við þessar aðstæður, sem eru þær erfiðustu sem fjölskyldan hefur glímt við.

 

„Ég fékk símtal frá bráðamóttökunni á Landspítalanum í Fossvogi þar sem ég var spurð hvort ég ætti dóttur sem heitir Sólrún Alda Waldorff, maður glaðvaknar strax við slíka spurningu,“ segir Þórunn Alda aðspurð um fyrstu fregnir hennar af brunanum þessa örlagaríku nótt.

„Mér var tilkynnt að hún hefði orðið fyrir reykeitrun og ég var komin í fötin og út í bíl um leið og ég heyrði orðið „bráðamóttakan“ í símtalinu. Ég hringdi í Þórð pabba hennar, sem býr í Reykjavík og sagði honum að fara upp á spítala þar sem dóttir okkar hefði fengið reykeitrun. Meira vissum við ekki, við vissum ekkert, ekki einu sinni þegar við komum upp á spítala.“

Á Landspítalanum var þeim vísað inn í aðstandendaherbergi á fyrstu hæð þar sem þau biðu eftir Hafliða Breka, bróður Sólrúnar Öldu. Þaðan var þeim svo fylgt upp á gjörgæslu. „Þar tók prestur á móti okkur, ásamt lækni og hjúkrunarfræðingi. Þar fengum við svona fyrstu upplýsingar um hvað hefði gerst, en þetta eru óljósar þokuminningar.“

- Auglýsing -

Eiginmaður Þórunnar, Pétur Karlsson, var á sjó þegar eldsvoðinn varð. „Pétur var sofandi þegar ég hringdi og var vakinn um leið. Prestur var með mér þegar ég hringdi og hann tók hreinlega símann af mér og sagði Pétri stöðuna. Ég var einfaldlega ekki fær um að meta hana, enda á þeirri stundu ekki búin að hitta þau. Og þó að væri búið að segja mér stöðuna frá A til Ö, var ég ekki fær um að meta hana. Þú meðtekur ekki upplýsingar í þessari stöðu.“

Ákvörðun tekin um að flytja Sólrúnu Öldu á sjúkrahús erlendis

Sú ákvörðun var tekin fljótlega af læknateyminu á Landspítalanum að senda Sólrúnu Öldu á sjúkrahús erlendis. „Þau hafa getu hér heima til að sinna þremur brunasjúklingum í einu og þeir voru orðnir þrír. Og þau tvö með alvarlega brunaáverka,“ segir Þórunn Alda. Fyrst var haft samband við sjúkrahús í Noregi sem gat ekki tekið á móti henni, en læknar þar vísuðu á sjúkrahúsið í Linköping í Svíþjóð.

- Auglýsing -
Þórunn Alda Gylfadóttir.

„Þau sögðu strax já við að taka á móti henni. Á miðvikudeginum fengum við að vita að hún yrði flutt þangað klukkan átta á fimmtudagsmorgninum. Ísland er lítið land og það er ekki möguleiki á að vera með stóra brunadeild hér,“ segir Þórunn Alda.

Faðir Sólrúnar Öldu, Þórður Waldorff, starfar hjá Icelandair, fjölskyldan tók þá ákvörðun að fara utan og fóru foreldrar hennar, stjúpfaðir og bróðir. „Kolbeinn Karl Kristinsson, vinnufélagi Þórðar, bókaði far fyrir okkur út á fimmtudeginum til Kaupmannahafnar og þaðan til Stokkhólms,“ segir Þórunn Alda. „Ég og pabbi hennar höfum verið hér úti allan tímann. Hafliði og Pétur eru farnir heim. Þar þarf að sinna heimilinu og hinum börnunum. Við erum tvö hér úti og gerum okkur enga grein fyrir hvenær við komum heim.“

Hvernig er aðstaðan fyrir ykkur foreldrana? „Hér er haldið rosalega vel utan um okkur. Við komum hingað snemma á föstudagsmorgni, eftir að hafa hvílt okkur eina nótt á leiðinni enda alveg búin á því. Læknateymið sem tók á móti Sólrúnu Öldu tók á móti okkur, hjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafi sem stjórnar í svona aðstæðum. Þegar við komum sagðist félagsráðgjafinn bóka okkur á heimili Ronalds McDonalds sem McDonalds-fyrirtækið á og rekur hér fyrir aðstandendur sjúklinga. Þaðan er bara tveggja mínútna gangur yfir á sjúkrahúsið.“

Þórður Waldorff faðir Sólrúnar Öldu.

Öllum dögum varið hjá dótturinni

Dagarnir eru langir hjá Þórunni Öldu og Þórði sem verja meirihluta sólarhringsins hjá dóttur sinni. „Við vöknum svona sex á morgnana, og erum mætt þegar spítalinn opnar klukkan hálfsjö. Hér erum við síðan til tíu, ellefu, tólf, eitt á kvöldin og það fer aðallega eftir hvernig dagurinn hjá Sólrúnu Öldu hefur verið. Við erum meirihluta dagsins inni á stofunni hjá henni, en einnig er hér fín setustofa þar sem við getum líka verið,“ segir Þórunn Alda.

„Við erum mjög mikið bara inni hjá henni, enda megum við það. Þetta er hátæknisjúkrahús, þannig að við þurfum að spritta okkur, þrífa og fara í slopp. Við göngum ekki bara inn auðveldlega, fyrst þurfum við að gera þetta sem ég taldi upp, enda alltaf verið að vernda sjúklinginn fyrir smithættu. Það er mjög vel hugað að öllum svona atriðum. Öllum atriðum sem hægt er að stjórna er stjórnað.“

Rahmon og Sólrún Alda

Fjölskylda Rahmons hjá honum hér á landi

Parið unga hefur verið saman í tæp tvö ár. Sólrún Alda er fædd árið 1997, uppalin í Grindavík og er á síðasta ári í sálfræði við Háskóla Íslands. Rahmon er fæddur árið 1992 í Tatíkistan og hefur búið hér á landi í nokkur ár þar sem hann starfar hjá tölvufyrirtæki, en hann er menntaður tölvunarfræðingur og með meistaragráðu í alþjóðlegri hagfræði (world economics). Að sögn Þórunnar Öldu hafði parið gert plön saman.

„Þau kynntust á Netinu eins og nútímafólk gerir og voru með framtíðarplön saman eins og ungt fólk er með. Sólrún Alda var búin að ákveða að fara í frekara nám.“

Rahmon dvelur á Landspítalanum hér heima. „Það var ákveðið að hafa hann hér heima, en flytja hana út. Fjölskylda hans kom til landsins einhverjum fjórum dögum eftir brunann. Við náðum sambandi við fjölskylduna og foreldrar hans fengu ferða-visa í þrjá mánuði og dvelja í íbúð Þórðar heima á Íslandi,“ segir Þórunn Alda.

„Við erum með reykskynjara á okkar heimili, og maður gerir bara ráð fyrir að aðrir séu með þá. Þeir kosta nú ekki svo mikið, kannski 900 krónur stykkið og ég er kannski barnaleg að halda að þetta sé fyrsta öryggistækið sem fólk myndi fjárfesta í þegar það flytur í nýja íbúð.“

Einn reykskynjari hefði bjargað öllu

Bruninn varð sem fyrr segir í kjallaraíbúð í Mávahlíð í Reykjavík og var fjallað um hann í öllum fjölmiðlum landsins. Þar bjó Rahmon, kærasti Sólrúnar Öldu. „Hún gisti hjá honum þar þessa örlagaríku nótt,“ segir Þórunn Alda. „Hún var ýmist heima hjá sér eða hjá honum, bara eins og gengur.“

Enginn reykskynjari var á heimilinu, en eigandi íbúðarinnar komst út af sjálfsdáðum. Sólrúnu Öldu og Rahmon var bjargað út um svefnherbergisgluggann þeirra. „Við erum með reykskynjara á okkar heimili, og maður gerir bara ráð fyrir að aðrir séu með þá. Þeir kosta nú ekki svo mikið, kannski 900 krónur stykkið og ég er kannski barnaleg að halda að þetta sé fyrsta öryggistækið sem fólk myndi fjárfesta í þegar það flytur í nýja íbúð.“

„Við höfum ekki fengið upplýsingar um það,“ segir Þórunn Alda aðspurð um orsök brunans. „Einu upplýsingarnar sem við höfum eru það sem við höfum lesið, að hann hafi átt upptök sín í eldhúsinu vegna potts á eldavél. Við höfum ekki fengið upplýsingar frá lögreglunni eða öðrum. Og svo sem ekki sóst eftir þeim heldur.“

 Ætlar að koma heim með dóttur sinni

Vikuna eftir brunann í Mávahlíð urðu fjórir til fimm heimiliseldsvoðar víðs vegar um landið, og líkt og þar var enginn reykskynjari til staðar. Tjón varð á öllum heimilum, mikið á sumum þeirra, en enginn slasaðist í þeim eldsvoðum.

„Þessar fréttir sjokkeruðu okkur og við fengum smááfall við að fólk væri svona kærulaust. Ef þú treystir þér ekki til að bora reykskynjara upp í loftið, settu hann þá upp á skáp, finndu hæsta punkt í íbúðinni, settu hann upp á gardínustöngina. Sýndu frumkvæði,“ segir Þórunn Alda og ítrekar mikilvægi þess að fólk hugi að brunavörnum á heimilum sínum.

„Ég hef aldrei og ætla aldrei að lenda í þessu aftur. Og ég óska engu foreldri að vera í þessari stöðu. Þetta er tilgangslaust, farðu út og kauptu þér reykskynjara. Hvert einasta heimili ætti að vera með reykskynjara,“ segir Þórunn Alda þegar hún er spurð þeirrar kaldranalegu spurningar hvort aðstæðurnar nú séu ekki þær verstu sem hún hefur glímt við.

„Ég hef aldrei og ætla aldrei að lenda í þessu aftur. Og ég óska engu foreldri að vera í þessari stöðu. Þetta er tilgangslaust, farðu út og kauptu þér reykskynjara. Hvert einasta heimili ætti að vera með reykskynjara.“

„Það á ekki að vera þannig að það séu fjórir eldsvoðar sömu vikuna og enginn með reykskynjara. Þetta er svo skrítið, kannski af því að við höfum alltaf verið með reykskynjara á okkar heimili og farið yfir þá,“ segir Þórunn Alda og bætir við að læknarnir úti hafi sagt þeim að eldsvoðar séu algengir í svefnherbergjum þar sem fólk hleður síma þar inni. „Við hjónin settum reykskynjara upp í öllum svefnherbergjum. Ég vil hvetja fólk til að setja upp reykskynjara, sérstaklega í svefnherbergjum unglinga, bara ef eitthvað gerist.“

Fjölskyldan hefur notið mikils stuðnings eftir að eldsvoðinn varð. Vinkonur Sólrúnar Öldu stóðu fyrir bænastund í Grindavíkurkirkju og styrktartónleikar eru fyrirhugaðir 10. desember. „Við höfum fundið mikinn stuðning frá fólkinu okkar og samfélaginu. Við erum þakklát öllu því fólki sem kemur fram á tónleikunum og við skipulagningu þeirra. Sigríður María á þakkir skildar fyrir vinnu sína. Bryggjan fyrir að lána þeim húsnæði sitt þennan dag. Við finnum stuðning úr öllum áttum,“ segir Þórunn Alda.

Tíminn einn á eftir að leiða í ljós hvernig bati unga parsins verður. „Það á eftir að koma í ljós hvaða afleiðingar eldsvoðinn hefur. Við tökum bara hálfan dag í einu og höfum gert síðasta mánuð. Við gerum engin plön nema þau að við ætlum heim saman,“ segir Þórunn Alda. „Við erum staðráðin í því að koma heim með Sólrúni Öldu, hvenær sem það verður.“

Fjölskyldan: Þórunn Alda og Pétur ásamt börnum sínum, Hafliða Breka og Sólrúnu Öldu Waldorff, Birgittu Sif, Karli Óskari og Glódísi Köru Pétursbörnum.

Sjá einnig: „Ég óska engu foreldri að vera í þessari stöðu“

Sjá einnig: Sólrún Alda og Rahmon berjast fyrir lífi sínu: Styrktarreikningur stofnaður

Sjá einnig: Bænastund í Grindavíkurkirkju fyrir konuna sem slasaðist í brunanum í Mávahlíð

Sjá einnig: Þrjú slösuð eftir bruna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -