Birgitta Jónsdóttir komst í fréttir á dögunum þegar staðfest var að höfuðkúpa sem verið hafði í vörslu lögreglunnar síðan 1994 var af föður hennar, Jóni Ólafssyni, sem hvarf á aðfangadag 1987. Hvarf hans er þó engan veginn eina mannshvarfið sem snert hefur líf Birgittu djúpt, eiginmaður hennar, Charles Egill Hirst, hvarf 1993 og fannst ekki fyrr en fimm árum seinna og þegar hún var tólf ára hvarf föðursystir hennar. Hún hefur því sjálf upplifað hvað eftir annað hvernig aðstandendum horfins fólks líður og berst fyrir breytingum á þeim verkferlum sem farið er eftir í slíkum málum.
Annar kerfisgalli sem Birgittu er umhugað um að verði breytt er að aðstandendur þurfa að fara fyrir dómstóla og færa sönnur á að viðkomandi sé látinn. „Lögin eru enn þá dálítið sniðin að þeim tíma þegar það var mjög algengt að sjómenn hyrfu úti á sjó,“ segir hún. „Og í dag er það enn þá þannig að hálfu ári eftir að viðkomandi hverfur þurfa aðstandendur að sækja mál þar sem þeir sýna fram á að aðstandandi þeirra sé látinn. Sönnunarbyrðin er öll á þeim og þeir þurfa að afla sér gagna frá lögreglu, eða einhverri slíkri stofnun sem sannar að farið hafi fram leit og svo framvegis. Það er bara hræðileg upplifun. Í fyrsta lagi langar mann ekki að þurfa að færa sönnur á að viðkomandi sé látinn, það er mjög erfið reynsla og mér finnst fullkomlega óeðlilegt að færa sönnunarbyrðina yfir á aðstandendur á þennan hátt. Svona mál á ekki að þurfa að reka fyrir dómstólum, það hlýtur að vera hægt að finna einhverja aðra leið til að úrskurða einhvern látinn, án þess að setja það þannig upp að aðstandendur óski þess. En þetta verður maður að gera því annars fær maður engin réttindi, maður getur ekki gert upp dánarbúið, fær engar bætur og getur ekkert gert.“
Hér leiðum við talið að öðru hvarfi náins ástvinar Birgittu, þegar eiginmaður hennar, Charles Egill Hirst, hvarf á Snæfellsnesi sumarið 1993.
„Þegar maðurinn minn heitinn hvarf var ég með lítið barn og ég átti ekki rétt á hans barnabótum, eða leikskólaplássi sem einstætt foreldri eða ekkja fyrr en ég gat farið með málið fyrir dómstóla. Það er bara algjörlega óboðleg staða fyrir unga konu í þessum aðstæðum.“
Charles Egill fannst ekki fyrr en fimm árum eftir að hann hvarf og Birgitta segir að þótt hún hafi vitað að hann hefði svipt sig lífi þar sem hann hafi skilið eftir skilaboð hafi sá tími verið mjög erfiður bæði fyrir hana og son hennar. „Sem betur fer fannst hann,“ segir hún. „Það er alveg hræðilegt að fara í gegnum svona tímabil svona lengi, sérstaklega fyrir börn. Og þegar Kalli fannst fór ég líka að geta unnið í sjálfri mér varðandi hvarf pabba. Ég var auðvitað mjög ung, tvítug þegar pabbi hvarf og tuttugu og fimm ára þegar maðurinn minn hvarf og kunni ekkert að takast á við þetta.“
Leitin að Charles Agli var stærsta leit Íslandssögunnar og Birgitta segir að eftir hana hafi verkreglum um slíkar leitir verið breytt. „Hann fannst rétt fyrir utan svæðið þar sem leitað hafði verið,“ útskýrir hún. „En ekki fyrr en fimm árum síðar. Það var reyndar þriðja mannshvarfið sem ég upplifði því þegar ég var tólf ára hvarf systir hans pabba. Hún og kærastinn hennar voru í bíltúr í Þorlákshöfn og hurfu en síðar kom í ljós að bíllinn hafði fokið út í höfnina í hálku og roki. Þau voru bæði mjög ung og alveg yndislegt fólk. Leitin að þeim tók nokkra daga en við mamma vorum nýfluttar í bæinn og ekki með síma þannig að við vissum ekki af þessu. En akkúrat á þeim tíma sem hún hvarf fékk mamma óskaplega sterka tilfinningu fyrir því að hún yrði að semja lag og úr því varð lagið Veistu að þinn vinur er að deyja?“
Sjá einnig: Fengu enga áfallahjálp, bara svefnpillur
Lestu viðtalið við Birgittu í heild sinni í helgarblaðinu Mannlífi.