Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

„Þetta viðmót hefur alltaf haft ógeðsleg áhrif á líf mitt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á æskuheimili Ernu Marínar Baldursdóttur var mikið um drykkju og ofbeldi. Sjálf var hún misnotuð kynferðislega af stjúpföður sínum og stjúpsystur. Gögn sem hún hefur undir höndum sýna svart á hvítu að yfirvöldum var kunnugt um ástandið en aðhöfðust lítið. Þá segir Erna fagaðila ítrekað hafa brugðist sér þegar hún hefur viljað tala um ofbeldið sem hún var beitt af hendi konu.

Þetta er sagan hennar Ernu. Hún er sú eina sem er nafngreind, af tillitsemi við aðra þolendur, mögulega þolendur og nákomna sem hafa ekkert unnið sér til saka. Við hittumst fyrst á ritstjórnarskrifstofu Mannlífs, þar sem Erna stiklar á stóru: Hún man fyrst eftir að hafa verið misnotuð af stjúpföður sínum þegar hún var fjögurra ára gömul. Misnotkunin stóð yfir í fimm til sex ár, þangað til hún varð ítrekað svo veik að hún var lögð inn á spítala. Veikindin voru líkamleg en rakin til andlegrar heilsu Ernu vegna aðstæðna heima fyrir. Skömmu áður en þau gerðu vart við sig var hún misnotuð af stjúpsystur sinni í nokkur skipti.

Að sögn Ernu lá vitneskja fyrir um kynferðisofbeldið innan fjölskyldunnar. Stjúpinn hafði gert tilraun til að nauðga eldri systur hennar þegar Erna var fimm ára og systirinn ellefu ára. Vinkona systurinnar var í heimsókn og sagði frá. Atvikið var tilkynnt til lögreglu en málið dagaði uppi. Erna veit ekki hvers vegna. Hún segir að líklega hafi mamma hennar átt hlut að máli; hún vissi hvað var í gangi, segir Erna. Aðrir vissu að ástandið á heimilinu var ekki eðlilegt; endalaust djamm og drykkja. Erna man eftir því að hafa vaknað ein heima með litlu systur sinni, sem lá í rimlarúminu sínu með pelann sinn.

Enginn kom Ernu til bjargar. Gögn sem hún hefur undir höndum sýna að yfirvöld vissu þó um stöðuna á heimilinu; um drykkjuna og ofbeldið, sem var kynferðislegt, líkamlegt og andlegt.

Eins furðulega og það kann að hljóma þá er það ekki ofbeldið af hálfu stjúpans sem hefur skilið eftir sig verstu sárin. „Þetta var eiginlega eðlilegt. Þetta var það sem ég ólst upp við. Þetta var það sem ég upplifði og ég þekkti ekkert annað, af því að ég var ekki farin að hitta pabba aftur,“ útskýrir Erna en foreldrar hennar skildu að skiptum þegar hún var tveggja ára. Nei, það sem situr eftir er móðurástin sem hún þráði svo heitt en fékk aldrei að njóta og sú staðreynd að fá aldrei að vera þolandi þegar hún hefur reynt að gera upp kynferðisofbeldið af hendi stjúpsystur sinnar. Jafnvel ekki hjá fagaðilum. Viðbrögð þeirra segir hún hafa verið að finna skýringar, afsakanir, á því af hverju stjúpsystirin braut á henni.

- Auglýsing -

„Þetta er ómeðvitað örugglega,“ segir hún þegar við ræðum síðar saman á fallegu heimili hennar í höfuðborginni. „En ég hef ekki lengur skilning á þessu.“ Atvikin áttu sér stað með þeim hætti að hún var leidd afsíðis þegar stjúpsystirin kom í heimsókn og látin gera hluti sem hana langaði ekki til. Hún var átta ára, stjúpsystirinn 17 ára. Þegar Erna hefur leitað til fagaðila með frásögnina bregðast þeir iðulega við með því að segja að stúlkan hafi líklega sjálf verið fórnarlamb. „Þetta viðmót hefur alltaf haft ógeðsleg áhrif á líf mitt. Ég er ekki komin til að ræða hvað sé að hjá þessari manneskju. Ef þér er nauðgað þá ferðu ekki til Stígamóta til að ræða af hverju viðkomandi nauðgaði þér.“ Hún bendir á að hún hafi aldrei lent í því að fagaðilar freistist til að útskýra ástæður þess að karlmenn hafi brotið á henni.

Þegar við hittumst fyrst fell ég sjálf í þessa gryfju; hlusta á frásögnina í fyrsta sinn og spyr, eins og blaðamaður sem er að leita útskýringa, hvort það sé mögulegt að ástæða þess að fagfólkið staldri við frásögnina af stjúpsysturinni sé ekki kynið heldur sú staðreynd að hún var sjálf barn, þótt aldursmunurinn hafi vissulega verið mikill. Það kemur vonleysissvipur á Ernu og hún lemur flötum lófunum í borðið. „Nú ert þú að gera þetta líka!“ segir hún og óttast augljóslega að vera að hlaupa á enn einn vegginn. Fas hennar minnir mig á barn sem reynir í örvæntingu að tjá eitthvað mjög mikilvægt en fullorðna fólkið gefur sér ekki tíma til að hlusta og skilja.

 „Ég var svo lítil …“

- Auglýsing -

Eftir útskýringar náum við saman og ákveðum að hittast aftur.

Ég spyr hana hvernig þetta byrjaði; hvort hún eigi einhverjar góðar minningar frá sama tíma. Já, segir hún. Það var stundum mikill gestagangur á heimilinu og skemmtilegar frænkur sem komu í heimsókn. Svo fannst henni gaman að fara í útilegur og leika sér við aðra krakka. Hún var félagslynt barn á þessum tíma og glöð. En allt átti þetta sínar skuggahliðar. Erna er ekki berorð í frásögnum sínum en þær eru átakanlegar engu að síður. Hún lýsir því hvernig stjúpinn sat á sloppnum í sófanum og tók hana í kjöltuna á meðan hún var á nærfötunum einum saman. Hvernig hann skreið inn í tjald og ofan á hana og þreifaði á líkama hennar í útilegunum.

„Hún bara vill ekki vita af þessu. Ekki þá og ekki í dag. Hún bara afneitar veruleikanum.“

„Ég fann alltaf fyrir einhverju röngu, einhverju óþægilegu. En ég gat ekki sett það í samhengi fyrr en ég var orðin aðeins eldri,“ segir hún um það hvernig hún upplifði þetta á sínum tíma, þegar hún var sem yngst. Það var mikil drykkja á heimilinu; kannski ekki dagdrykkja, segir Erna, en oft drukkið um helgar og „þá fór allt til helvítis.“ Hún talar um hörmungar sem blæddu út í næstu viku; barsmíðar og öskur og grát. „Ég náttúrlega lærði þarna að hlýða og varð bæld því ég sá hvernig hann níddist á systur minni,“ segir Erna. Og þá á hún ekki bara við líkamlegt ofbeldi. Sú minning sem virðist valda henni hvað mestum sársauka í dag er að hafa hlustað á systur sína gráta á meðan stjúpinn var að níðast á henni. Á meðan, segir hún, gætti móðir þeirra þess að vera upptekin í eldhúsinu.

En er hún viss um að mamma hennar hafi vitað hvað var í gangi?

„Já,“ svarar Erna og horfir á mig með svip sem segir: Auðvitað vissi hún þetta. „Hún var á heimilinu þegar þetta gerðist. Bæði ofbeldið og kynferðisofbeldið. Ég man bara eftir henni á heimilinu og fyrir utan það þá sögðum við henni þetta margsinnis.“ Og hvað sagði hún? Erna setur sig í stellingar móður sinnar og hummar og hváir. „Svo bara þegar við erum farnar að tala um þetta og þetta er farið að sjást utan á mér þá erum við systurnar geðveikar og eigum bágt og erum athyglissjúkar.“

Erna segist afar ósátt við móður sína sem enn í dag vill ekki viðurkenna að nokkuð hafi átt sér stað. „Hún bara vill ekki vita af þessu. Ekki þá og ekki í dag. Hún bara afneitar veruleikanum.“ Erna segist telja sig muna eftir því að fullorðnir hafi reynt á sínum tíma að ræða ástandið við móður hennar en án árangurs.

Erna brotnar að lokum niður við að tala um mömmu sína. „Þetta gerði það að verkum að ég hætti að segja frá. Því ef það gerist ekkert þá hlýtur þetta að vera í lagi … Ég er að bíða eftir að mamma elski mig og þegar maður er búin að reyna … Maður upplifir geðveika höfnun. Það gerist ekki neitt og ég held að það sé það versta. Ég var á tímabili farin að halda að ég væri bara geðveik. Ég var svo lítil og var ekki eins og ég átti að mér að vera. Ég var orðin hokin og inni í mér, full af kvíða og vanlíðan. Þá hættir maður að tala; ég hætti að tala. Það var til einskis. Ég fékk alltaf bara höfnun.“

Lestu viðtalið í heild í nýju Mannlífi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -