Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-2.2 C
Reykjavik

„Dóttir mín breytti mér þótt ég fengi aldrei að horfast í augu við hana“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hallgerður Hallgrímsdóttir myndlistarmaður opnar á morgun sýninguna Dauðadjúpar sprungur í galleríinu Ramskram á Njálsgötu. Þar sýnir hún ljósmyndir sem hún tók fyrstu mánuðina eftir að dóttir hennar fæddist andvana. Margar myndanna segist hún ekki muna eftir að hafa tekið, henni hafi liðið eins og hún væri inni í sorgarhjúp sem aðskildi hana frá veröldinni.

 

„Ég fór upp á fæðingardeild í september 2015 og hélt bara að ég væri að fara að fæða barnið mitt, sem ég gerði reyndar, en þegar ég var komin þangað fannst enginn hjartsláttur hjá barninu,“ segir Hallgerður um þá reynslu sem liggur að baki myndunum. „Þetta var stærsta áfall lífs míns og þegar ég kom heim af spítalanum vissi ég ekkert hvað ég ætti að gera. Eitt af því sem ég gerði þegar ég vaknaði eftir fyrstu nóttina heima var að taka upp myndavélina og taka sjálfsmynd, sem verður á sýningunni, og næstu mánuði á eftir eigraði ég mikið um hverfið þar sem ég bjó og var nýflutt í. Ég fór líka mikið í bíltúra með manninum mínum og væflaðist bara eitthvað um. Ég var alls ekki með það í huga að vinna verk á þeim tíma, en svo fóru áteknu filmurnar að staflast upp í ísskápnum og þegar ég tók eftir því framkallaði ég filmurnar og fór að skoða myndirnar. Þá breyttist mín leið til að taka myndir pínulítið. Maður tekur myndir öðruvísi þegar maður hefur ekkert ákveðið markmið í huga og ég mundi ekki einu sinni eftir því að hafa tekið margar af þessum myndum sem voru á filmunum.“

„Við svona áfall fer maður dálítið að endurmeta lífið, þannig að maðurinn minn hætti í vinnunni og við fórum í ferðalag saman og náðum að endurhugsa það hvað okkur finnst mikilvægt í lífinu og hvernig við vildum verja tíma okkar.“

Sorgin dró hulu yfir allt

Hallgerður segir í kynningu á sýningunni að hún hafi að einhverju leyti notað myndavélina sem hlíf gegn þeim tilfinningum sem hún upplifði á þessum tíma.

„Já, kannski,“ viðurkennir hún. „Ég held að myndavélin fangi að einhverju leyti það sem er að brjótast um í undirmeðvitundinni. Þannig að myndirnar fanga líka sálarástand ljósmyndarans. Sumir segja að allar myndir sem ljósmyndarar taka séu sjálfsmyndir. Mér fannst á þessum tíma vera ótrúlega mikil fjarlægð milli mín og heimsins. Mér leið eins og sorgin drægi hulu yfir allt, eins og ég væri föst í sömu sporum og tíminn liði ekki fyrir mig heldur bara fyrir aðra. Upplifði þetta dálítið eins og dagarnir væru seigfljótandi, svona eins og þegar mann dreymir að einhver sé að elta mann og maður reynir að hlaupa en tekst það ekki. Þetta ástand varði í um það bil ár og myndavélin var á milli mín og heimsins.“

Spurð hvað fleira hún hafi gert til þess að reyna að vinna úr sorginni segir Hallgerður að hún og eiginmaður hennar, Sigurður Arent, hafi meðal annars verið í stuðningshópi sem Landspítalinn stendur fyrir fyrir fólk í þessari stöðu.

- Auglýsing -

„Það er skipulagt þannig að nokkrum mánuðum eftir áfallið er fólki boðið að koma og taka þátt í hópvinnu með öðrum sem hafa misst barn á meðgöngu,“ útskýrir hún. „Þar ræðir fagfólk við hópinn og mér fannst rosalega gott að sækja þessa þerapíu. Ég hitti líka sálfræðing á Landspítalanum sem sérhæfir sig á þessu sviði og það var mjög hjálplegt. Við svona áfall fer maður dálítið að endurmeta lífið, þannig að maðurinn minn hætti í vinnunni og við fórum í ferðalag saman og náðum að endurhugsa það hvað okkur finnst mikilvægt í lífinu og hvernig við vildum verja tíma okkar.“

Lestu viðtalið í heild sinni í Mannlífi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -