Sunnudaginn 31. ágúst 2005 var haldið upp á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Á stóra sviðinu stýrði Árni Johnsen brekkusöng og fram kom hljómsveitin Land og synir. Í kjölfarið tjáir Hreimur Örn Heimsson sig að Árni Johnsen hafi kýlt sig í andlitið.
3. ágúst 2005 birtist frétt í Dagblaðinu Vísi þar segir: „Árni Johnsen og Hreimur Örn Heimisson eru ekki sammála um atburði sunnudagsins á Þjóðhátíð. Hreimur Örn segir Árna hafa kýlt sig en Árni segist eingöngu hafa rekist óviljandi í hann og beðið hann afsökunar strax. Vitni segja Árna hafa rekið Hreimi kröftugan löðrung en Hreimur er þriðji tónlistarmaðurinn sem Árni gengur í skrokk á á Þjóðhátíð.“
Árni þrætti fyrir þrátt fyrir fjölda vitna
Þá lýsir Árni atburðinum svoleiðis: „Þetta er úlfaldi í mýflugumynd,“sagði Árni í samtali við DV í áðurnefndri grein. „Ég var að taka saman hljóðnema á sviðinu þegar ég rakst óviljandi utan í hann. Þetta er bara misskilningur. Ég bað hann afsökunar strax og man ekki betur en að við höfum gert út um þetta strax á sviðinu,“ sagði Árni.
Vignir Snær Vignisson, gítarleikari Írafárs, var á sviðinu þegar umrætt atvik átti sér stað. Hann lýsti atvikinu þannig: „Hann sló hann utan undir, þetta var kröftugur löðrungur,“ Hann bætti við að enginn þeirra sem var uppi á sviði þegar uppákoman átti sér stað hafi viljað gera nokkuð. „Við erum allir rólyndismenn. Það var kannski líka eins gott í stöðu eins og þessari.“
Þrjár útskýringar Árna
Árni gaf fjölmiðlum mismunandi útfærslur á atburðinum og segir Hreimur í viðtali við DV 4. ágúst 2005: „Hann hefur sagt að hann hafi verið að teygja sig í hljóðnemann og
rekist í mig, hann hefur sagt að ég hafi gengið á hendina á sér til að búa til „tragedíu“ og svo hef ég heyrt að hann hafi verið að reyna að grípa mig. Ég stend fastur á mínu enda sáu allir viðstaddir að engin af þessum skýringum er nálægt því sem gerðist.“
Hótarnir og áreiti í smáskilaboðum
Hreimi barst fjölda hótana og varð fyrir töluverðu áreiti eftir að málið komst í fjölmiðla og tjáði sig við DV um nafnlaus smáskilaboð sem honum barst símleiðis. Má frá þeim áætla að heimamenn í Vestmannaeyjum hafi staðið þétt við bakið á Árna.
- Þú ættir að skammast þín!
- Þú ert að koma óorði á fjölskyldu hans, hefur hann ekki gengið í gegnum nóg?
- Hið rétta á eftir að koma í ljós
- Ég vona að ég hitti aldrei aftur mann eins og þig á lífsleiðinni!
- Ég hélt að ég þekkti þig.
- Þú veist hvað gerist þegar þú kemur til Eyja.
Gillzenegger lét málið sig varða
Málið náði flugi í samfélagsumræðunni og þann 5. ágúst 2005 sagði Egill Gillzenegger frá ferðasögu sinni á þjóðhátíð í pistli í Dagblaðinu Vísi og hafði þetta um málið að segja:
„En núna er ekki talað um annað en þetta Árna Johnsen mál og Hreim. Mér finnst þetta nokkuð einfalt. Ef Árni Johnsen löðrangar þig, þá er tvennt i stöðunni. Annaðhvort löðrungar þú hann til baka eða heldur fokking kjafti! Ekki koma vælandi í alla fjölmiðla á eftir eins og vændiskona.“
Egill sýnir Hreimi lítinn skilning og kallar hann í framhaldinu „has-been“.
„Hreimur er búinn að skíta á sig tvisvar núna á stuttum tíma. Kom í DV um daginn og sagðist vera orðin þreyttur á að vera frægur. Öll „has-beens“ koma í blöðin og segjast vera þreyttir á að vera frægir. Hey, Hreimur! Walter Kronkite er með „newsflash“ fyrir þig. „YOU AREN’T!““
Hávær kvenfyrirlitning og gerendameðvirkni er augljós í pistli Egils sem bendir Hreimi á að versla sér leggangahreinsi og lýkur pistlinum á orðunum: „Það er útsala á dömubindum og leggangahreinsum í Lyfju, snáfaðu þangað og verslaðu þér og hættu þessu væli. Getur kannski keypt þér einn sokk í leiðinni og látið hann upp í þig. Sjáumst eftir viku, sælar!“
Afsökunarbeiðni Árna
Árni sendi frá sér fréttatilkynningu, 3. ágúst 2005, sem birtist á síðum fjölmiðla. Hreimur tók við afsökunarbeiðninni en var ósammála lýsingu atviksins og óskaði eftir myndskeiðum af atburðinum. Fréttatilkynning Árna er hér að neðan og var svohljóðandi:
„Vegna fréttaflutnings af atviki á Brekkusviði á Þjóðhátíð í Herjólfsdal í Eyjum í lok vel heppnaðrar Þjóðhátíðar og brekkusöngs s l. sunnudagskvöld, vill undirritaður gefa eftirfarandi yfirlýsingu:
Vegna misskilnings á milli fulltrúa í Þjóðhátíðarnefnd og kynnis sem jafnframt er dagskrárstjóri ásamt Þjóðhátíðarnefnd og stjórnandi Brekkusöngs, var kynni ekki kunnugt um að hópur söngvara úr dagskrá Þjóðhátíðarinnar, ætti að syngja kveðjulag að loknum brekkusöng, en venjan er að þegar brekkusöng lýkur með íslenska þjóðsöngnum, standi allir þjóðhátíðargestir upp í brekkunni eins og vera ber og síðan er kveikt á blysum um hálfan Herjólfsdal og flugeldum skotið upp að því loknu.
Lagið sem hópurinn söng kom hins vegar strax á eftir brekkublysunum eða um tveimur mínútum eftir að brekkusöng lauk. Þá var enn verið að slökkva í varðeldinum og hreinsa leyfar varðeldsins af danspalli Brekkusviðsins og fullbúinn slökkviliðsbíll var á danspallinum beint fyrir framan sviðið og skyggði á það. Þá snaraði kynnir sér upp á svið og ætlaði að hliðra til þessu atriði sem var ekki á dagskrá hans sem kynnis, en þetta taldi hann nauðsynlegt af öryggisástæðum, því venjan er sú að um leið og dagskrá byrjar aftur á upplýstu Brekkusviðinu eftir brekkusöng með sviðið myrkvað, þá flykkist unga fólkið á danspallinn og ef slíkt hefði hent með pallinn óhreinsaðan og slökkviliðsbílinn við sviðið hefði mikil hætta getað skapast. Þegar kynnir þreif síðan í hita leiksins í þröng á sviðinu til hljóðnema af þessum sökum að loknum flutningi kveðjulags rakst hann slysalega á Hreim söngvara sem kom að hljóðnemanum í sömu mund. Það var því síður en svo ásetningur að bregða Hreimi söngvara.
Þjóðhátíðarkynni er ljúft að biðja Hreim afsökunar á þessum óvænta árekstri og reyndar gerði hann það einnig á Brekkusviðinu þegar atvikið átti sér stað.
Dagskrá Þjóðhátíðar Vestmannaeyja er metnaðarfull og margslungin og stundum þarf að grípa skjótt í taumana á 10 þúsund manna hátíð, en þá er hætta á hnökrum sem alltaf hefur verið hægt að leiðrétta sem betur fer.
Undirritaður harmar að þetta atvik skyldi koma upp eins og skrattinn úr sauðaleggnum, en við félagar Hreimur Örn Heimisson söngvari erum sammála um að þetta mál sér úr heiminum í fullri sátt. Það hefur Hreimur staðfest eftir samtal mitt við hann um þetta bréf. Hittumst í Herjólfsdal að ári.“