Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

„Það hafa fundist smitaðir einstaklingar hérna allt um kring“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðlaug Böðvarsdóttir býr ásamt ítölskum manni sínum og tveimur ungum sonum í smábænum Castelluchio í Lombardiu-héraðinu á Ítalíu þar sem gripið hefur verið til mikilla aðgerða til að reyna að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar. Hún segir bæjarbúa skelfingu lostna og að margir fari vart út úr húsi vegna ótta við að smitast.

„Ég veit ekki hvernig mér líður,“ segir Guðlaug spurð hvernig líðan fylgi því að vera á þessu svæði núna. „Þetta er allt eitthvað svo skrýtið. Það hefur ekki greinst neitt smit hér í bænum enn þá, en það er búið að loka skólum og leikskólum, banna messuhald í kirkjum og fella niður alls kyns samkomur. Þeir lokuðu til dæmis heilsugæslunni strax á mánudaginn og báðu fólk að hringja eða fara beint á neyðarmóttökuna ef eitthvað væri að. Þeir réðu ekki lengur við álagið. Fólk verður náttúrlega skíthrætt um leið og það finnur fyrir einhverjum einkennum og flýtir sér til læknis um leið.“
Í Castelluchio búa um fimm þúsund og fimm hundruð manns en nálægðin við aðra smábæi er mikil og Guðlaug, sem er heimavinnandi húsmóðir, segir svæðið vera nokkurn veginn í miðju þess svæðis þar sem smit hafa fundist. „Það hafa fundist smitaðir einstaklingar hérna allt um kring,“ segir hún. „Svo við bara krossleggjum fingur og vonum það besta.“

„Fólk verður náttúrlega skíthrætt um leið og það finnur fyrir einhverjum einkennum og flýtir sér til læknis um leið.“

Afgreiðslufólk með grímur og sótthreinsilög

Spurð hvort búið sé að loka verslunum og öðrum vinnustöðum í bænum segir Guðlaug að það sé búið að loka nokkrum stöðum. „Í dag var til dæmis bar sem Kínverjar reka hér lokað,“ segir hún. „Það voru allir hættir að vilja fara þangað. Nokkrum búðum hefur líka verið lokað og götumarkaðurinn sem er alltaf hér á miðvikudögum var nánast tómur í dag.“
Guðlaug segir það gegnumgangandi í bænum að fólk haldi sig heima hjá sér ef það þurfi ekki nauðsynlega að reka einhver erindi. Verslunarmiðstöðvar séu nánast tómar og annað eftir því. Ekki sé þó algengt að fólk sé með grímur fyrir andlitinu, nema starfsfólk í opinberum stofnunum og apótekum. „Við þurftum að ná í nafnskírteini fyrir yngri son okkar áðan og í þeirri ríkisstofnun sem sér um það var starfsfólkið allt með hanska og passaði sig að koma ekki of nálægt viðskiptavinunum. Fólkið sem vinnur í apótekunum er allt með grímur og spreybrúsa með sótthreinsandi efni sem það sprautar á afgreiðsluborðið um leið og það hefur afgreitt hvern og einn viðskiptavin.“

Segir mikið að fyrst búið sé að loka kirkjum

Synir Guðlaugar eru þriggja ára og sjö mánaða og hún segir þá allt of unga til að gera sér neina grein fyrir ástandinu. Sá eldri sé þó leiður yfir því að mega ekki fara á leikskólann sinn en honum hefur verið lokað til 2. mars að minnsta kosti. Hún segir eiginmann sinn hins vegar finna fyrir því að fólk frá þessu svæði Ítalíu sé ekki velkomið í öðrum hlutum landsins. „Hann er tæknifræðingur sem vinnur fyrir stórt fyrirtæki við að setja upp og gera við vélar í alls kyns fyrirtækjum og mörg fyrirtæki sem eru ekki á þessu svæði eru búin að loka fyrir það að þeir sem komi til að vinna fyrir þá séu frá Norður-Ítalíu.“
En er óttinn áþreifanlegur í daglegum samskiptum fólks? „Já, hann er það. fólk forðast hvert annað eins og það getur. Um daginn sá ég lítið barn æla á gólfið í stórmarkaði þar sem fólk var að hamstra nauðsynjar og það bara braust út algjör móðursýki,“ útskýrir Guðlaug. „Fólk bregst engan veginn rökrétt við í þessum aðstæðum, óttinn stjórnar öllu. Það segir kannski mest um ástandið að það sé búið að banna messur,“ bætir hún við. „Þá er sko eitthvað mjög mikið að ef Ítalir banna fólki að koma í kirkjuna sína.“

- Auglýsing -

Sjá einnig: Fjölskyldufríið breyttist í martröð: Uppskurður, RS-vírus, sandstormur og kórónaveira

Nánari umfjöllun í helgarblaðinu Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -