Sindri Ploder er ungur maður sem vakið hefur athygli fyrir myndir sínar og skúlptúra. Hann er með Downs-heilkenni og er lífsglaður og sáttur í eigin skinni að sögn móður hans, Svöfu Arnardóttur, og lætur hann ekki fötlunina hamla sér; hún segir að hans helsta fötlun sé mikil heyrnarskerðing sem getur gert samskipti erfið við þá sem ekki skilja tákn með tali.
Mannlíf hafði samband við þau mægðin til að kynnast Sindra og listaverkum hans. Svafa kom spurningum blaðamanns áleiðis til Sindra og svaraði svo fyrir hans hönd.
Sindri hefur haft gaman af því að teikna frá því hann var strákur og undanfarin ár hefur hann lagt áherslu á að teikna andlit og að gera skúlptúra. (https://www.facebook.com/tilverur)
Sumir eru grimmir og reiðir en flestir eru glaðir
„Honum finnst bara sjálfsagt að myndirnar hans líti svona út og það er gaman að teikna andlit og alls kyns svipbrigði. Sumir eru grimmir og reiðir en flestir eru glaðir. Frændi hans gaf honum rafmagnsútskurðarhníf og Sindri fór að skera kalla út í trédrumba sem áttu að notast sem eldiviður. Honum finnst líka gaman að tálga greinar með hníf og búa til stóra göngustafi eins og tröllin nota til að ferðast um fjöllin. Honum finnst gaman að drekka úr fallegum bollum og það er mjög gott að drekka sódavatn úr Sindrakrús,“ segir Svafa, en framleiddar eru krúsir með myndum eftir Sindra. Svafa og faðir Sindra, Björgvin Ploder, bjuggu krúsirnar til og segir Svafa að Sindra finnist ekki gaman að vera með í að búa til krúsir. „Hann vill bara teikna myndirnar sem fara á krúsirnar, en við getum gert rest.“ Þess má geta að krúsirnar fást í Álfagulli í Hafnarfirði.
Teppin í framleiðslu
Sindri hefur tekið þátt í ýmsum sýningum. Hann tók meðal annars þátt í hönnun leikmyndar tékknesks leikhúss fyrri hluta ársins 2016 fyrir leikgerð á Skugga-Baldri eftir Sjón, sem sýnt var í Hafnarhúsinu nokkrum sinnum og er enn í sýningu í Prag.
„Árið 2016 kom leikstjóri, Kamila Políková, frá Prag í Hitt húsið þar sem Sindri var að teikna og vildi fá hann til þess að vera með í að búa til leikmynd fyrir leikgerð af Skugga-Baldri eftir Sjón. Það var sett upp í Hafnarhúsinu og þar var hann í marga daga með þeim að teikna. Það þótti honum gaman og svo sá hann leikritið. Árið 2019 bauð leikstjórinn honum út til Prag að sjá sýninguna þar, svo Sindri fór þangað með okkur foreldrum sínum. Flestir sem að sýningunni standa buðu honum svo í ferðalag um Tékkland þar sem hann sá kirkju sem búin var til úr mannabeinum og það þótti honum flott. Fullt af hauskúpum og örugglega draugum. Svo fór hann í mjög margar stórar og gamlar kirkjur og fékk góðan mat.“
Teikningar Sindra voru notaðar á ullarteppi sem Mundi hannaði
Sindri tók þátt í samsýningu á vegum Listar án landamæra 2017 þar sem hann vann með hönnuðinum Munda vonda þar sem teikningar Sindra voru notaðar á ullarteppi sem Mundi hannaði. Sindri tók einnig þátt í List án landamæra 2019 þar sem hann sýndi ullarteppin og nýja tréskúlptúra. Einnig sýndi hann með List án landamæra í Bókasafni Seltjarnarness í október 2020. Fyrsta einkasýning hans var í Listasal Mosfellsbæjar janúar–febrúar 2021 og í desember 2021 tók hann þátt í samsýningu í Núllinu (Bankastræti) ásamt öðrum ungum listamönnum.
Þegar Sindri hélt sýningu í Listasal Mosfellsbæjar í fyrra voru nokkur teppi til sýnis sem Sindri og hönnuðurinn Mundi vondi unnu saman fyrir List án landamæra 2017. Að sögn Svöfu vildu margir kaupa svona teppi, en þau voru öll í einkaeigu svo hún og faðir Sindra töluðu við Varma og þar voru prjónuð svona teppi úr lambsull. „Þau eru mjúk og stinga næstum ekkert. Sindri fékk líka að skoða verksmiðjuna og allar prjónavélarnar og valdi svo liti. Það áttu að vera þrenns konar litasamsetningar en Sindri vildi hafa fjórar þannig að teppin eru blá/hvít, svart/hvít, græn/hvít og appelsínugul/svört. Honum finnst appelsínugula teppið flottast og á eitt svoleiðis sjálfur.“ Teppin, eins og krúsirnar, fást í Álfagulli.
Tónlist, leikhús og ferðalög
Það sem Sindra finnst skemmtilegast að gera fyrir utan að teikna er að hlusta á tónlist, fara í leikhús og ferðast og þá helst til útlanda. „Ekki er verra ef þetta tvennt fer saman og hefur hann farið í leikhús í London, New York og Prag. Hann á stórt búningasafn og bregður sér reglulega í allra kvikinda líki og setur upp leiksýningar í stofunni.“
Hvað með hindranir?
„Honum finnst hann hvergi mæta neinum hindrunum og það er bara ágætt að vera ekki eins og aðrir. Honum finnst líka gaman að fara til tannlæknis og að fá bréf; gluggabréf eru sérlega skemmtileg.“
Hvað er það skemmtilegasta sem Sindri hefur gert og hvað er það erfiðasta?
„Það skemmtilegasta sem hann hefur gert er að fara til útlanda, en það leiðinlegasta er þegar stóri bróðir hans dó,“ segir Svafa, en stóri bróðir Sindra hét Fróði og lést í apríl 2020 28 ára gamall.
Blessuð sé minning hans.
Viðtal þetta birtist fyrst 17 febrúar 2022.