Lögregla var kölluð út seint í gærkvöld vegna aðila sem lét illa í miðbænum. Dólgurinn hafði ógnað fólki ítrekað og veittist svo að lögreglumanni þegar verið var að aðstoða hann. Var hann í annarlegu ástandi og gisti bak við lás og slá. Fyrr um kvöldið hafði lögregla afskipti af tveimur aðilum sem tóku hluti ófrjálsri hendi í verslun í miðbænum.
Annar þjófurinn var samvinnuþýður en hinn reyndi að skalla lögreglumann og var því látinn gista á Hverfisgötunni. Þá barst lögreglu aftur tilkynning um laus hross, ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvar hrossin voru staðsett. Ökumaður slasaðist við akstur á mótorkrosshjóli í gær. Var hann fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar en meiðslin reyndust sem betur fer ekki alvarleg. Þá stöðvaði lögregla nokkra sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum vímuefna.