Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Meira að segja Ólafur segir ofurlaun stærstu ógnina: „Margt vitlausara en að lækka forstjóralaunin“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það hlýtur að teljast óvanalegt þegar Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, er á því máli að ofurlaun yfirmanna á Íslandi séu eitt stærsta vandamál samtímans. Í aðsendri grein í Viðskiptablaðið, sem hann birtir á vef félagsins, kallar hann eftir því að laun forstjóra verði lækkuð. Annars megi fyrirtæki búast við skelli í haust.

„Framundan eru erfiðar kjaraviðræður. Vaxandi verðbólga, afleiðing ytri áfalla, ógnar kaupmætti launafólks. Hækkandi húsnæðiskostnaður hefur sömu áhrif. Margir stjórnendur minni og meðalstórra fyrirtækja, sem eru uppistaðan í Félagi atvinnurekenda – og í íslenzku atvinnulífi – hafa miklar áhyggjur af komandi misserum. Þeir hafa síðustu mánuði leitað allra leiða til að hagræða og komast hjá því að velta hækkun á nánast öllum aðföngum út í verðlagið, á sama tíma og þeir þurfa að takast á við tvær kjarasamningsbundnar hækkanir á launum,“ segir Ólafur.

Hann segir að þrátt fyrir þetta sé lítið svigrúm til launahækkana. „Það er rétt hjá hagfræðingum sem unnu skýrslur fyrir þjóðhagsráð að svigrúmið til launahækkana er lítið sem ekkert. Það er gömul saga og ný að nafnlaunahækkanir, sem ekki byggjast á aukinni framleiðni atvinnulífsins, kynda undir verðbólgu en slá ekki á hana. Samningar sem gengju út á slíkar hækkanir myndu gera illt verra og skerða kaupmátt,“ segir Ólafur.

Hann segir algengt að hvetja stéttarfélög til ábyrgðar. Nú séu atvinnurekendur þó að sýna óábyrgð. „Undanfarin ár hafa verið tími mikillar kaupmáttaraukningar. Við sem tölum máli atvinnurekenda höfðum gjarnan til ábyrgðar stéttarfélaga og hvetjum forystumenn þeirra til að gera skynsamlegar kröfur sem stuðla að því að varðveita árangurinn en stofna honum ekki í hættu. Við verðum líka að gera kröfur til sjálfra okkar og forðast að ala á reiði, sundrungu og misklíð á vinnumarkaði. Fréttir af því að forstjórar stærstu fyrirtækja landsins hækki í launum um margföld mánaðarlaun verkafólks og að kaupaukakerfi og ríflegir bónusar, sem hurfu eftir hrun, hafi verið endurreist hafa vakið slík viðbrögð hjá verkalýðshreyfingunni. Afleiðingarnar eru líklegar til að bitna harðast á litlu og meðalstóru fyrirtækjunum,“ segir Ólafur.

Hann biðlar að lokum til stjórna fyrirtækja um að lækka laun forstjóra. „Fleiri slík axarsköft væru ein stærsta ógnin við farsæla niðurstöðu kjaraviðræðna. Stjórnir stærstu fyrirtækjanna gætu gert margt vitlausara en að lækka forstjóralaunin í aðdraganda kjarasamninga og setja bónusum og arðgreiðslum hófleg mörk.  Kraftar atvinnulífsins verða nú um stundir að beinast að stöðugleika, bæði hvað varðar verðlag, hagnað og laun.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -