Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-2.2 C
Reykjavik

Fólkið sem syndir undir ísnum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sölvi Leví og félagar hans í Ice Tribe Iceland stunda það að synda undir ís. Fyrsta ísbaðið var á annan í jólum.

 

„Þetta er ein besta núvitundaræfing sem hægt er að fá,“ segir Sölvi Leví Pétursson, einn þeirra sem stunda af krafti sjósund og annað útisund.  Sölvi, sem er 45 ára fyrrverandi sjómaður, tilheyrir hópi sem ber nafnið Ice Tribe Iceland sem gæti útlagst sem Ísfólk Íslands. Sportið gengur að hluta út á það að synda undir lagnaðarís. Iðkendur í þessu jaðarsporti eru 12 alls. Félagsskapurinn er ungur því fyrsta ferð ísfólksins var 26. desember. Sölvi og félagar láta sér ekki nægja að stunda sund á yfirborði heldur synda gjarnan kafsund undir ís. Þá sagar fólk göt á ísinn með reglubundnu millibili. Svo er synt frá vök í vök. Það vekur með mörgum hroll. Fólkið hefur stundað sportið á Hafravatni og Seltjörn. Mannlíf mætti á Seltjörn, skammt frá Grindavík, frostkaldan marsdag og ræddi við Sölva og félaga hans auk þess að prófa en Sölvi segir upplifunina einstaka. „Það að synda undir ísnum er eins og að koma inn í annan heim. Þá eykur það á spennuna að það er ekki hægt að stoppa á miðri leið. Maður verður að synda áfram,“ segir hann.

Sölvi Leví Pétursson

Sölvi segir að allir sem eru við góða heilsu geti stundað þetta sport. „Ég mæli með því að fólk prófi fyrst að mæta á staðinn með okkur og prófi að fara ofan í vatnið og kíkja aðeins undir ísinn. Í framhaldinu getur það síðan reynt að fara stutta vegalengd undir ís, kannski 2-3 metra,“ segir Sölvi.

Hann segir að hópurinn viðhafi gríðarlegar varúðarráðstafanir til að tryggja öryggi þeirra sem synda kafsundið. Ljós, fest við göngustaf, er látið síga niður í holuna sem sundmaðurinn ætlar að koma upp um. Þá er spotti bundinn um miðju sundmannsins.

Synt í átt að ljósinu

„Fólk syndir svo í átt að ljósinu. Ef eitthvað ber út af drögum við sundmanninn til baka í vökina þaðan sem lagt var upp. Það hefur aðeins einu sinni gerst. Þann bar af leið og hann hitti ekki vökina. Vatnið var gruggugt og hann sá ekki ljósið. En hann var aldrei í hættu. Venjulega gengur allt að óskum og sundmaðurinn upplifir mikla spennu og ánægju,“ segir Sölvi.

Kíkt upp úr vökinni.
Lagt í hann.
Undirbúningur.

Sölvi hefur sjálfur farið lengst 16 metra undir ís. Hann hefur smám saman fikrað sig frá því að fara mjög stuttar leiðir undir ís og upp í þetta.

- Auglýsing -

„Ég byrjaði í fyrrasumar að æfa mig í kalda karinu í sundlauginni í Keflavík. Í framhaldinu kynntist ég fólki á höfuðborgarsvæðinu sem stundar sjósund. Ég féll strax fyrir þessu sporti og mætti nánast daglega. Eitt leiddi af öðru og nú skemmtum við okkur við að synda undir ís. Þetta er frábært sport í góðum félagsskap,“ segir Sölvi.

Kuldalegt er það.

Til þess að geta synt í kafi beita Sölvi og félagar ákveðinni öndunartækni sem þeir hafa æft stíft. „Með tækninni næ ég að synda í rúmar tvær mínútur án þess að draga andann. Maður kemst langt á þeim tíma,“ segir Sölvi.

Húni Húnfjörð, félagi Sölva, tekur undir með félaga sínum og segir íssundið vera í senn spennandi og skemmtilegt. „Fólk getur fundið okkur á Facebook og sett sig í samband. Í framhaldinu getur það mætt á viðburði og kynnt sér þetta sport,“ segir Húni.

- Auglýsing -
Hress að loknu íssundi.

Myndir / Þröstur Njálsson og fleiri.

Myndband / Sölvi Leví.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -