Í samtali við Mannlíf ræðir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra COVID-19 faraldurinn sem herjar á íslensku þjóðina, stjórnmálin og einkaklífið.
„Ég geri ekki neitt. Ég er svo leiðinleg týpa,“ segir hún og hlær, þegar hún er spurð út í áhugamálin. „Ég hef gaman af útivist. Ég er ekki að grínast. Ég fer út að hlaupa en samt ekki á veturna af því að ég er ekki afreksmanneskja. Mér finnst líka gaman að ganga í náttúrunni. Ég les ótrúlega mikið. Svo finnst mér gaman að vera til. Ég þarf rosa lítið til þess að hafa gaman af lífinu. Ég hef svo gaman af fólki. Það gefur mér mest að vera með fólki.“
Hvað með tónlistarsmekkinn?„Ef ég ætti ekki mann þá væri ég örugglega ennþá að hlusta á Duran Duran. Það er mjög vandræðalegt. Ég fylgist ekki beint með. Hann sér líka um að ég horfi á nýja sjónvarpsþætti en ef ég byggi ein myndi ég eingöngu horfa á Barnaby.“
„Ég tók skeið þar sem ég velti því fyrir mér hvernig ég kæmist hjá því að brosa svona mikið af því að ég heyrði oft að ég væri alltaf hlæjandi eins og fífl.“
Það er stutt í gleðina og húmorinn hjá forsætisráðherranum sem segist alltaf hafa jafn gaman að ensku gamanþáttunum Já, ráðherra „þar sem ráðherrann er algjörlega úti á þekju,“ segir Katrín og hlær. „Það er gaman að svona pólitísku gríni og þetta minnir mig stundum á lífið í ráðuneyti þegar ég sé þessa þætti. Ég hef frá því ég byrjaði í stjórnmálum stundum verið skömmuð fyrir að brosa of mikið. Ég tók skeið þar sem ég velti því fyrir mér hvernig ég kæmist hjá því að brosa svona mikið af því að ég heyrði oft að ég væri alltaf hlæjandi eins og fífl. Svo hugsaði ég með mér að ef þetta snerist um að afþakka lífsgleðina þá myndi ég bara sleppa þessu. Annaðhvort tækju stjórnmálin mér eins og ég er og ég fengi að halda lífsgleðinni þótt það þyki stundum ekki viðeigandi. Og það hefur gengið ágætlega. Það er ómetanlegt að sjá hið góða og skemmtilega í hlutunum.“
Nánar er fjallað um málið í helgarblaðinu Mannlíf.