Afmælisbarn dagsins er ísdrottningin sjálf, Ásdís Rán Gunnarsdóttir, fyrirsæta og athafnakona. Eru nú liðin 43 ár frá fæðingu hennar.
Ásdís Rán ólst að hluta til upp í Fellabæ á Fljótsdalshéraði en einnig á Höfn í Hornafirði og í Breiðholtinu í Reykjavík. Vakti hún snemma athygli fyrir fegurð og klassa en það var ljósmyndarinn Björn Blöndal sem uppgötvaði hana sem fyrirsætu. Um ævina hefur hún setið fyrir á hinum ýmsum tímaritum, til að mynda Maxim og á forsíðu Playboy í Búlgaríu. Þá stofnaði afmælisbarnið módelskrifstofuna model.is og rak nærfataverslun í Búlgaríu en þar hefur hún verið með annan fótinn síðustu ár. Og ef þetta er ekki nóg, þá lærði Ásdís Rán á þyrlu og hefur leyfi til að fljúga þrjár tegundir þyrla, hvorki meira né minna.
Mannlíf heyrði í Ásdísi í tilefni dagsins og vildi vita hvort og þá hvernig hún hyggðist halda upp á daginn.
„Heyrðu, ég er bara uppi á spítala með syni mínum. Hann er veikur. Svo þarf ég að skutla dóttur minni út á Keflavíkurflugvöll á eftir, hún er að fara til Svíþjóðar og sonur minn er á spítala þannig að ég verð bara að geyma veisluhöldin í nokkra daga.“
Mannlíf hefur góðan skilning á því, móðurhlutverkið gengur auðvitað fyrir.
En hvað er á döfinni hjá Ásdísi á næstunni?
„Nú er skólinn að byrja hjá krökkunum en svo verð ég sennilega í Búlgaríu í septemberþ Þar er ég að fara að taka upp einn sjónvarpsþátt. Það mun taka sirka tvær vikur. Þetta er svona international-þáttur um OneCoin-málið þar sem ég spila stóra rullu en þetta snýst um vinkonu mína, hana Ruju. Þau munu senda kvikmyndalið til mín sem mun fylgja mér í nokkra daga.“
Aðspurð hvort hún sé ennþá mikið í Búlgaríu játar Ásdís því. „Já ég er mest þar en svo er bara svo mikil einangrun þar vegna Covid, dóttir mín var búin að vera í tvö ár í online-skóla og ég lét það eftir henni að koma til Íslands svo hún gæti tekið 10. bekk hér. Svo kom stríðið líka og á meðan óvissustigið er svona hátt ætlum við bara að vera hér heima.“
Mannlíf óskar Ásdísi Rán innilega til hamingju með afmælið og vonar að sonur hennar braggist fljótt.