Sunnudagur 29. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Gretu Salóme leyst ekkert á Disney-ævintýrið í upphafi: „Mér fannst ég vera fyrir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nýjasti gestur Hildar Maríu í Lifa og njóta hlaðvarpsþættinum er engin önnur en söngkonan og fiðlusnillingurinn Greta Salóme Stefánsdóttir. Þjóðin kynntist þessari hæfileikabombu er hún keppti fyrir hönd Íslands í Eurovision með lagið Mundu eftir mér árið 2012 og hefur haldið áfram að heilla landann æ síðan. Ræðir hún meðal annars um Disney-ævintýrið sem í byrjun leit ekkert sérstaklega vel út. Þá segir hún einnig frá áfallinu þegar faðir hennar fékk heilablóðfall í miðju flugi.

Þakklát fyrir agann og aðhaldið

Hildur María velti því fyrir sér í byrjun viðtalsins hvernig Greta Salóme hafi verið sem barn og í raun hver þessi litla ljóshærða stelpa væri.

„Ég var bara aðeins minni,“ svaraði Greta og hló. Hún hélt svo áfram: „Ég er fædd og uppalin í Mosfellsbænum og er bý þar reyndar ennþá, núna. Ég byrjaði að spila á fiðlu þegar ég var fjögurra ára gömul og í rauninni tók tónlistin bara yfir líf mitt allt. Ég fór í gegnum Suzuki-námið og mæli heldur betur með því.“ Segir Greta að hún mæli með því námi fyrir fólk sem vill senda börn sín í tónlistanám. Þar sé mikill agi en einnig mjög mikil gleði. Systir Gretu Salóme var með henni í náminu en í Suzuki-náminu fylgja foreldrar börnum sínum í gegnum námið og því var öll fjölskyldan í þessu saman. „Við erum mjög samheldin fjölskylda og þetta var alltaf svo gaman,“ sagði Greta en tók það svo til baka: „Nei, ég ætla að taka þetta til baka, í minningunni var þetta alltaf gaman og námið var það en auðvitað tími þar sem maður vildi ekki æfa sig og vildi ekki gera þetta og hitt en einhvernveginn aginn og aðhaldið, ég er ótrúlega þakklát fyrir það í dag. Það sem Suzuki hefur kennt mér hef ég tekið með mér út í lífið og bý enn að, þannig að ég er mjög þakklát fyrir það.“

Greta Salóme fór síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík og svo í Menntaskólann í Reykjavík. Eftir útskrift stundaði hún svo nám við Listaháskóla Íslands þar sem hún nam Bacherlor-nám í fiðlu. Næst lá leiðin til Bandaríkjanna þar sem hún nam við Stetson-háskólann í Florida. Eftir það snéri hún svo aftur heim og klára meistaranám í tónlist árið 2012.

Hildur spurði Gretu hvort það sé ekki rétt að í henni búi uppreisnarseggur, sem stundum brýst út í tónlistinni. „Já, ég hef alltaf synt upp á móti straumnum hvað það varðar en ég var alltaf svo heppin að ég var með stuðninginn heima. Ég til dæmis fékk alveg að skrúfa upp í útvarpinu og spila með og syngja með og búa til í kringum það sem ég var að hlusta á. Og stundum þegar ég átti að vera að æfa skalana mína á fiðluna þá fór ég og pikkaði upp gítar Metallica-rokk sóló,“ sagði Greta og skellti upp úr. „Ég kunni einu sinni allan kataloginn af Metallica-gítarsólóunum á fiðluna. Þannig að ég hef alltaf verið svolítill rebell í mér.“ Segir Greta að hún sé afar þakklát fyrir stuðninginn heima fyrir og það hafi gert henni kleift að fara sínar eigin leiðir í tónlistinni.

- Auglýsing -

Disney-ævintýrið

Fyrir nokkrum árum var Greta Salóme ráðin á skemmtiferðaskip á vegum Disney-samsteypunnar.

„Ég hef verið on og off á Disney-skipinu frá 2014 og er að fara aftur út núna eftir tvær vikur,“ segir Greta og brosir sínu breiðasta, greinilega spennt. Er þetta síðasta ferðin á þessu ári en svo var hún að skrifa undir nýjan samning við Disney. „Ég er að fara á nýtt skip núna, þeir eru að stækka flotann sinn, eru með fimm skip núna. Þeir eru að koma með eitt skip til Evrópu og ég er að fara að opna það season núna. Ég var á Bahamas og mikið á Karabíska hafinu en líka nálægt Spáni en mest á Flórída.“

- Auglýsing -

Hildur spurði Gretu hvort það sé mikill lúxus um borð í skipum Disney og neitar Greta því ekki. „Já, Disney gerir mjög vel við aðalnúmerin þeirra, þeir passa það að manni líði vel í þessu verkefni. Þannig að ég hef verið ótrúlega heppin, er alltaf með svítu út af fyrir mig. Yfirleitt má ég líka hafa einhvern með mér þannig að ég hef oft með mér fjölskyldumeðlim. Reyndar þarf maður að fara mjög varlega núna vegna Covid en ég er einmitt að jafna mig á Covid akkurat núna.“ Greta Salóme fékk Covid úti í Bandaríkjunum í janúar á þessu ári, þrátt fyrir að vera full bólusett en svo fór hún í þriðju sprautuna í júní til að vera alveg örugg en einum og hálfum mánuði síðar var hún komin aftur með veiruna. „Þannig að þetta er búið að vera svolítið tricky tímabil, að vera söngkona með Covid og missa röddina.“

En aftur að Disney. Greta sagði það mikinn miskilning að hún sé að leika prinsessur í sýningum hennar hjá Disney. „Ég er bara með show sem heitir Greta Salóme. Þannig að ég kem bara fram undir mínu eigin nafni og er að spila mitt efni og svo spila ég mínar útsetningar á Disney-lögum og svo spila ég eitthvað annað líka. Ég skipti showinu svolítið í þrennt. Þeir hafa leyft mér að fara svolítið mínar eigin leiðir í þessu showi, þeir hafa leyft mér að þróa það. Ég tek til dæmis íslensk lög líka og þeim finnst það mjög skemmtilegt.“

Gretu Salóme leyst eiginlega ekkert á blikuna þegar hún fór fyrst út til að vinna fyrir Disney. „Þegar ég byrja hjá Disney 2014, þá var þetta svolítið sérstakt ferli. Ég fer þangað út í gegnum umboðsskrifstofu og ég fékk svo lítið að vita. Ég vissi bara að þeir vildu að ég setti upp einhverskonar show hjá þeim en ég vissi eiginlega ekki neitt. Þannig að þegar ég kem út til þeirra þá vissi enginn hvað þeir ættu að gera við mig. Það var búið að vera í fjölmiðlum hér heima að ég væri að fara að spila fyrir Disney þannig að ég var ótrúlega spennt en svo kem ég út og þetta voru eiginlega bara vonbrigði. Og ég gat ekki farið heim því það var búið að auglýsa alls staðar að ég væri með show hjá Disney,“ sagði Greta og hló. „Ég gat ekki komið heim og bara sagt „Nei, þetta hentaði mér ekki“, þannig að ég ákvað bara að gera gott úr þessu.“ Enginn virtist vita hvað gera ætti við Gretu Salóme en vissu bara að þeir vildu vinna með henni og þróa eitthvað. „Þannig að við byrjum show og ég var með alveg geggjað fólk í kringum mig sem hafði trú á þessu.“

Fyrsta sýningin sem Greta var með var lítið í sniðum en það var í leikhúsi sem tók um 500 manns. Þegar þeim samningi lauk bjóst hún við að hennar tími hjá Disney væri lokið. „Og ég var bara tilbúin að setja „check“ við þetta og fara heim og halda áfram með lífið. Og þá bjóða þeir mér þennan „Headliner“ samning sem er sá samningur sem ég hef verið á síðan. Þau sögðu að þau vildu kaupa þetta show sem þau eru búin að þróa og fjárfesta í því og í raun stækka það enn meira.“ Sem þau gerðu og er sýning hennar nú orðið hið glæsilegasta. Segist Greta Salóme mjög þakklát að hafa ekki farið heim þegar fyrsti samningurinn rann út en hún var ansi nálægt því. „Mér leið ekki vel, ég var með heimþrá og svo voru svo miklar væntingar því ég var að fara að vinna hjá Disney en svo er ég bara í pínulitlu herbergi og það vissi enginn einhvernveginn hvað þeir ættu að gera við mig og mér fannst ég vera fyrir. Þetta var rosa skrítin tilfinning.“

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan eða á VefTV Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -