Sunnudagur 12. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Með húmor að vopni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Svandís Svavarsdóttir segir hafa verið mjög krefjandi að vera heilbrigðisráðherra undanfarið misseri og fundið mjög fyrir ábyrgðinni sem á henni hefur hvílt. Hana hafi aldrei órað fyrir því að þurfa glíma við alheimsfaraldur þegar hún settist í ráðherrastólinn.

Heilbrigðisráðherrann er gífurlega stoltur af íslensku þjóðinni og er sannfærður um að sagan af baráttu þjóðarinnar við COVID-19 verði saga sem fleiri þjóðir muni vilja heyra. Hennar meginvopn í baráttunni er húmorinn og úthaldið.

„Einhvern tímann var ég að grínast með það, eftir að hafa verið umhverfisráðherra þegar Eyjafjallajökull gaus, að það væri alveg eftir öllu að ég yrði fyrsti heilbrigðisráðherrann sem þyrfti að beita samkomubanni. Og auðvitað kom það svo í minn hlut. En þetta var bara augljóst næsta skref þegar þar að kom og ég hikaði aldrei frammi fyrir þeirri ákvörðun,“ segir Svandís sem hefur haft í nógu að snúast síðustu mánuði.

Ráðherrann segir það hins vegar ekki hluta af persónugerð sinni að gefast upp eða bugast frammi fyrir stórum og erfiðum verkefnum. „Þegar ég settist í ráðherrastólinn datt mér aldrei í hug að ég þyrfti að glíma við alheimsfaraldur árið 2020. Það hefur verið mjög krefjandi að vera heilbrigðisráðherra undanfarið. Það óraði engan fyrir þessu.“

Fyrsta smitið hér á landi greindist föstudaginn 28. febrúar og strax þá helgina hófst skimun eftir smitum og smitrakningin. „Við fórum að undirbúa okkur strax í janúar þegar ljóst var í hvað stefndi. Það er alveg einstakt hvað við höfum náð langt í baráttunni við veiruna en við erum líka með gott fagfólk í þessu stóra verkefni. Í gegnum þetta hefur sóttvarnarlæknir staðið þétt við bakið á mér og hann hefur ekki aðeins menntað þjóðina í gegnum þetta heldur líka ráðherrann sinn. Með okkar aðferðum og verkfærum hefur okkur tekist mjög vel til. Við höfum beitt hörðum sóttvarnaraðgerðum en þær endurspeglast líka í þeim árangri sem við sjáum. Það sem gildir er að vera á undan veirunni.“

Muna að anda

- Auglýsing -

Þegar Svandís er spurð að því hvað hafi hjálpað henni persónulega í þessu erfiða verkefni segir hún: „Ég hef fundið hversu mikilvægt er að eiga gott persónulegt bakland. Sjálf hef ég alltaf lagt mikla áherslu á húmorinn því hann er gott vopn í miklu álagi og raunar í gegnum lífið sjálft má ekki gleyma því að hafa gaman. Ég hef líka lagt á það áherslu að gefa mér tíma inn á milli til að lesa skáldsögur og passa vel upp á nætursvefninn. En það sem er mikilvægast í þessu öllu samt er að muna að anda, stundum gleymist það þegar álagið er mjög mikið,“ segir Svandís.

Alveg magnað

Erfiðast í ferlinu öllu segir Svandís hafa verið að standa í kjaradeilu, lengst af hafi enn verið ósamið við hjúkrunarfræðingar sem hún telur vera hrygglengjuna í heilbrigðisþjónustunni. Hún er ánægð með að samningar náðust og er jafnframt virkilega stolt af íslensku þjóðinni. „Persónulega finnst mér þetta hafa verið leiðangur sem hefur dregið fram það besta og sterkasta í íslensku samfélagi. Við hikum ekki við að standa saman undir miklu álagi og erum fljót að hugsa út fyrir boxið,“ segir Svandís og telur að aðrar þjóðir komi til með að vilja heyra okkar sögu. „Þetta er vonandi saga sem við getum sagt fleirum en okkur sjálfum þegar þetta er að baki. Heilbrigðiskerfið okkar hefur líka sýnt ótrúlegt afl, sveigjanleika og fagmennsku. Þar hefur fjöldi heilbrigðisstarfsfólks lagað sitt daglega starf að afar krefjandi verkefnum undir miklu álagi. Fyrir þetta ber okkur öllum að þakka.“

- Auglýsing -

Þurft að slökkva elda

Svandís er ánægðust með hversu vel hefur tekist að halda almenningi upplýstum en það telur hún hafa verið lykilatriði. Á sama tíma er hún ánægð með hversu vel stjórnmálamennirnir hafa haldið sig frá sviðsljósinu og hleypt fagfólkinu að í staðinn. „Við nýttum bestu mögulegu vísindalegu þekkingu á hverjum tíma til að takast á við þetta og héldum hópinn með vísindafólkinu,“ segir Svandís.

Það hefur þó líka ýmislegt farið úrskeiðis, að mati ráðherrans, og ýmislegt sem draga má lærdóm af þegar faraldurinn verður yfirstaðinn. „Þegar ég lít til baka hefði ég viljað hafa gert betur í upplýsingagjöf til allra hópa í samfélaginu alveg frá upphafi. Það er eitthvað sem við megum bæta okkur mikið í, að miðla öllum upplýsingum til þeirra sem eru með annað móðurmál en íslensku og tryggja túlkun yfir á íslenskt táknmál. Þetta hefði ég viljað hafa í lagi frá fyrsta degi,“ segir Svandís en hún telur líka tækifæri í þessu fólgin. „Í fljótu bragði sé ég tækifæri á því að við nýtum verklagið sem við höfum tileinkað okkur, til dæmis að við nýtum meira göngudeildarþjónustu sem hefur virkað svo vel þannig að fólk þurfi síður að leggjast inn.“

Baráttan ekki búin

Svandís leggur ríka áherslu á að baráttunni við veiruna sé hvergi nærri lokið. „Svo lengi sem þessi veira er á kreiki er þetta ekki búið. Nú er ég hvorki bóluefnafræðingur né veirufræðingur en mitt besta fólk segir mér að bóluefnis sé langt að bíða. Jafnvel einhver ár þangað til að það liggur fyrir,“ segir Svandís.
„Ég hélt að það tilheyrði öðrum tímum að stórir veirufaraldrar leggi samfélög manna undir sig. Áhrifin af þessum faraldri eru alveg gríðarlega mikil og sem mannkyn erum við enn í miðjum klíðum. Ég myndi gjarnan viljað geta staðfest hvenær verður komið jafnvægi í íslenskt samfélag en það er veiran sem stýrir tímalínunni. Ef hún gengur áfram ljósum logum um heimsbyggðina verðum við að glíma við þetta áfram næstu misseri. Ég horfi til þess að við ættum samt að geta komist aftur á gott skrið á hér innanlands í lok þessa árs.“

Hrekkur í kút

Heilbrigðisráðherrann telur ljóst að mannfólkið muni læra ýmislegt af þessum heimsfaraldi. „Næsta verkefni á dagskrá verður hlýnun jarðar og loftslagsvandinn. Næst þurfa þjóðir heims að snúa bökum saman í að leysa það verkefni farsællega,“ segir Svandís.

„Því miður held ég að það sé langt í það að við notum gamla handabandið aftur. Sjálf hrekk ég í kút þegar ég sé fólk í bíómyndum sitjandi í kös, það er bara óþægilegt.
Ég tel að við munum breyta ýmsu í okkar daglegu háttum og lærum betur að meta það sem skiptir öllu máli.“

Hófleg skref

Svandís er þeirrar skoðunar að aflétting takmarkana sé hófleg útfærsla og skilur gagnrýnisraddir sem telja of hægt farið í afléttingu þeirra. „Því er alltaf við að búast að heyra gagnrýnisraddir enda snerta þessar ákvarðanir okkar líf hvers einasta manns. Ég tel ákvarðanir okkar réttar og öll þessi skref eru með fyrirvara um hvernig gengur hjá okkur. Við vitum að það þarf ekki nema eina óvarlega ákvörðun sem gæti leitt til þess að aftur þurfi að herða reglur. Við þurfum öll að vera samferða út úr þessum faraldri.“

Skrefin: 1. skref – 4. maí
Fjöldamörk samkomubanns hækkuð upp í 50 manns í stað 20 áður.
Skólastarf leik- og grunnskóla með eðlilegum hætti.
Starf framhalds- og háskóla heimilað en þó með fjöldatakmörkun 50 í sama rými.
Skipulagt íþróttastarf heimilað utandyra en þó með fjöldatakmörkun 50 saman í hóp hjá leik- og grunnskólabörnum og 4 saman hjá eldri iðkendum. Notkun á sameiginlegum búnaði haldið í lágmarki.
Ýmis starfsemi heimiluð: Nuddstofur, hárgreiðslustofur, snyrtistofur, sjúkraþjálfun, tannlækningar, söfn og sambærileg starfsemi.
Reglur um tveggja metra fjarlægð haldast haldast óbreyttar.

2. og 3. skref – Í sumar
Fjöldamörk samkomubanns hækka úr 50 í hærri tölu, mögulega í tveimur skrefum. Það fyrra upp í 100-200 manns og það síðara upp í 2000 manns.
Starfsemi líkamsræktarstöðva og sundlauga heimiluð.
Starfsemi kráa, veitingastaða, skemmtistaða og spilasala heimiluð.
Reglur um tveggja metra fjarlægð haldast óbreyttar.

4. skref – 1. september
Fjöldamörkum samkomubanns aflétt.
Áfram verði lögð áhersla á handþvott og öflugar sóttvarnir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -