„Þarna missti ég minn albesta vin og gekk í gegnum hrikalegt áfall þegar hann dó. Þegar dauðinn kom og ástvinur fór stóð ég algjörlega tóm og varnarlaus eftir,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, um sáran bróðurmissi þegar hún var á þrítugsaldri. Á barnsaldri missti hún sjón og upplifði erfitt einelti í æsku vegna fötlunar sinnar. Eftir að hafa sjálf alist upp við fátækt og erfiðleika er það einlægt markmið stjórnmálaforingjans að útrýma fátækt á Íslandi. Inga rifjar upp í viðtali við Mannlíf erfiðar minningar og nýrri sár sem til urðu á hinum fræga Klausturbar.
Erfiður bróðurmissir
Það er ljóst á frásögn Ingu að fátæktin hefur markað djúp spor í hennar sögu. Aðspurð hver hafi verið erfiðasta lífsreynslan fram til þessa segir Inga það hafa verið bróðurmissi árið 1988. Eldri bróðir hennar, Sigurjón Helgi Ástvaldsson, drukknaði þá við annan mann við Siglunes í miklu óveðri sem skyndilega skall á. „Þarna missti ég minn albesta vin og gekk í gegnum hrikalegt áfall þegar hann dó. Þegar dauðinn kom og ástvinur fór stóð ég algjörlega tóm og varnarlaus eftir. Hann var mikill tónlistarmaður og svo ótrúlega glæsilegur maður, eiginlega allar stelpurnar skotnar í honum. Þetta hafði gríðarlega mikil áhrif á mig og þarna lærði ég að taka lífinu aldrei sem sjálfsögðum hlut. Frá þessum tímapunkti hætti ég að vorkenna sjálfri mér, brosti framan í alla og ákvað að gera allt sem mér dytti í hug,“ segir Inga.
Alltaf að berjast
Inga segir það hafa verið algjör forréttindi að hafa alist upp á Ólafsfirði og hennar draumur sé að snúa þangað aftur í ellinni. Áður en hún gerir það ætlar hún sér að útrýma fátækt á Íslandi. Hún stofnaði Flokk fólksins árið 2016 og settist ári síðar inn á þing.
„Það var svo mikil nánd, kærleikur og vinskapur þar sem ég ólst upp. Þessu fylgdi svo mikið frelsi líka. Draumurinn er að þegar ég verð gömul þá ætla ég að fara heim til Ólafsfjarðar og njóta mín í gamla húsinu mínu,“ segir Inga dreymin en snýr sér fljótt aftur að alvörunni. „Ég berst gegn fátækt á Íslandi, bæði út frá erfiðleikunum og fátæktinni sem ég upplifði í æsku og einnig vegna þeirra erfiðleika og fátæktar sem ég hef barist við sjálf með mína fjölskyldu og börn. Ég hef í rauninni alltaf þurft að berjast.“
Lestu viðtalið við Ingu í helgarblaðinu Mannlíf.