„Það er verið að hóta þarna að taka af okkur rafmagnið, vatnið um mánaðamótin, læsa svæðinu, siga á okkur sýslumanni og dagsektum. Við eigum bara að vera farin út eftir tvær vikur. Þau hafa ekki kynnt sér stöðuna á svæðinu. Ég held að það séu kannski tíu til tólf hús sem eru ekki seld eða búið að ráðstafa. Það er bara verið að rífa alla daga þegar veður leyfir,“ segir Hrafnhildur Bjarnadóttir, formaður félags hjólhýsaeigenda á Laugarvatn í samtali við fréttastofu Stöðvar 2.
Í dag fengu íbúar hjólhýsasvæðisins á Laugarvatni bréf frá sveitarstjórn þar sem þeim var sagt að þeir þyrftu að yfirgefa húsin innan tveggja vikna. Formaður félags hjólhýsaeigenda á Laugarvatni segir bréfið fara hryllilega í alla íbúa en sveitarstjóri í Bláskógabyggð segir að fólki hafi átt að vera þetta ljóst.
Staðið í þeirri trú að það hefði til áramóta til að yfirgefa svæðið
Í frétt á Vísi segir Hrafnhildur að fólk hafi staðið í þeirri trú að það hefði til áramóta til að yfirgefa svæðið. Auðvitað hafi fólk ekki verið að standa í því að rífa húsin á meðan samningaviðræður stóðu yfir en þeim lauk fyrr í sumar með þeirri ákvörðun að svæðinu yrði lokað.
„Mér finnst ekki vera verið að koma til móts við fólk með þessu hótunum. Sveitarstjóri fullyrðir alls staðar þar sem hún er spurð að það sé ekki búið að ráðstafa þessu landi. Af hverju þarf þá allan þennan hasar?“ segir Hrafnhildur.
Hún segir að bréfið hafi verið sent til að benda þeim á það að samningur þeirra væri löngu runninn út og að það þyrfti nú að fara að fara.