Myllumerkin #SolidarityWithSanna, #SannaMarin og #DanceForSanna hafa verið að slá í gegn á Twitter í kjölfar þess að myndbönd af Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands, dansa láku á netið. Undir myllumerkjunum hafa konur byrjað að birta myndbönd af sér að dansa til stuðnings við forsætisráðherrann.
Jón Gnarr, fjöllistamaður var einn þeirra sem sýndi Sönnu samstöðu og póstaði eftirfarandi athugasemd á Twitter. Þar hvetur Jón stjórnmálamenn til að koma sér á dansgólfið:
I encourage all politicians to dance in support of #SannaMarin we desperately need politicians who are not afraid to be human #DanceForSanna people who don't laugh, dance or smile and have fun are not healthy and should not be in control of anything
— Jon Gnarr (@Jon_Gnarr) August 19, 2022
Á fimmtudaginn í síðustu viku birtist myndband á samfélagsmiðlum af forsætisráðherra Finnlands, Sönnu Marin, að dansa ásamt félögum sínum í heimahúsi. Stjórnarandstaðan sakaði hana um að hafa verið á eiturlyfjum þegar myndbandið var tekið.
Í kjölfar ásakananna fór Sanna í fíkniefnapróf til þess að sanna að hún hafi ekki verið á eiturlyfjum. Hún hefur ávallt haldið því fram að hafa einungis neytt áfengis umrætt kvöld og að hún hafi aldrei á ævi sinni tekið eiturlyf. Niðurstöður úr prófinu koma í þessari viku.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segist ætla að skemmta sér um helgina, en benti á að hún muni að öllum líkindum sleppa við að fara í blóðprufu vegna þess.
„Þarf ekki að fara í blóðprufu á morgun þó ég dansi mikið í kvöld“ skrifar Áslaug við færslu sem hún birti á Instagram. Þar vísar hún til máls Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands. Á samfélagsmiðlinum greinir Áslaug jafnframt frá því að hún hafi verið gestur í brúðkaupsveislu, þar sem hún væri líkleg til að gera sér glaðan dag.