Nýlega skrifaði ég um reynslu okkar hjóna af því að sækja um skiptingu lífeyrisréttinda og fór í kjölfarið í viðtal á Hringbraut. Síðan þá hafa ótalmargir haft samband við mig og sagt sínar farir ekki sléttar í viðskiptum við lífeyrissjóði.
Lífeyrir er hluti af launum vinnandi fólks og Íslendingar leggja fyrir alla starfsævina og meðan þessi 15 prósent eru samviskusamlega dregin af er fólki talin trú um að þetta sé gott kerfi, gæti hagsmuna okkar og tryggi góð lífskjör á efri árum. En þegar kemur að því að nálgast þessa peninga kveður við annan tón. Sjóðsfélagi rekst hvarvetna á hindranir og ef hann vill eitthvað hafa að segja um hvernig peningum hans er ráðstafað. Þess vegna er kannski ekki nema von að menn spyrji reglulega, hverjir eiga lífeyrissjóðina? Þeir virðast nefnilega eiga sig sjálfir.
Í það minnsta er það mín tilfinning eftir að hafa fengið í hendur það heilbrigðisvottorð sem sjóðirnir krefjast að lagt sé fram til að fá leyfi til að skipta lífeyrisréttindum með maka.
Er það einhver hemja að til þess að hjón geti skipt með sér lífeyrisréttindum sínum sé þeim gert að skilar ítarlegri og nærgöngulli skýrslu um heilsufarssögu sína? Tíunda vöðvabólguna í hálsinum, smitsjúkdómana, þursabitið og fleira og fleira. Hvað ef bankar tækju upp á að spyrja fólk hversu taugaveiklað það væri áður en það fengi ráðstöfunarrétt yfir peningunum á innlánsreikninum sínum? Og hvernig á að mæla taugaveiklun? Er það gert á skalanum 1-10 eða er Richter-kvarðinn heppilegur? Ef rétt er að spyrja alls þess, verða þá ekki rökin fyrir spurningunum að vera auðskiljanleg og gagnsæ þeim sem þurfa að undirgangast þær? Og hvað með öll þau veikindi sem menn hafa náð fullum bata við? Eiga þau að há fólki alla ævi? Margir glíma tímabundið við þunglyndi, meðal annars konur eftir fæðingu barns, en verða allra kerlinga og karla elstir þrátt fyrir það.
Mér finnst mjög erfitt að ímynda mér að allar þessar ágengu og undarlegu spurningar séu nauðsynlegar til að meta almennar lífslíkur fólks og þess vegna ætti að nægja að heimilislæknir skilaði vottorði um að viðkomandi sé heilsuhraustur. Þegar sótt er um ábyrgðarmikil störf eins og flugstjórn eða skipstjórnarstöðu er sú leið farin. Lækninum er treyst til að vinna sitt starf. Þess vegna er engu líkara en lífeyrissjóðirnir hafi tekið sig saman um að gera ríkari kröfur til félaga sinna. Er það eitthvað sem þeir eru tilbúnir að sætta sig við? Er kannski kominn tími til að við fáum að hafa meira um það að segja hvað verður um lífeyrisréttindi okkar?
Meðalaldur Íslendinga er með því hæsta sem þekkist í heiminum og heilsufar almennt gott. Við viljum þess vegna geta notið efri áranna. Það er ekki hægt ef tekjurnar hrapa eftir að eftirlaunaaldri er náð. Þess vegna er nauðsynlegt að fólki opnist leið til að skipuleggja starfslok sín fram í tímann og það án þess að þurfa að opna sjúkraskýrslur sínar og gangast undir vafasamt mat á andlegri heilsu sinni.