Skoðun.
Höfundur / Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Síðustu tvo áratugi hefur auðurinn í heiminum þrefaldast en kjör vinnandi fólks hafa á sama tíma ekki þrefaldast, þvert á móti. Í mörgum löndum hefur vinnandi fólk það verra í dag en fyrir tuttugu árum. Hvernig má þetta vera?
Þegar máttur og vald peninganna verður meira en máttur og vald almennings gerist það að völd og peningar sogast til þeirra sem fyrir eru á fleti. Í krafti peninga er hægt að sannfæra kjörna fulltrúa og almenning um að það sé á einhvern hátt betra fyrir alla að stórfyrirtæki geti makað krókinn að vild og séu ekki sett undir sömu reglur um skatta og skyldur og vinnandi fólk. Þannig hafa eigendur stórfyrirtækja um allan heim margfaldað gróða sinn án þess að hafa nokkrar áhyggjur af afkomu almennings. Sókn í meiri gróða hefur orðið til þess að sífellt er leitað leiða til að greiða sem lægst laun og skatta til samfélagsins.
Árið 2013 hrundi átta hæða fataverksmiðja í Bangladesh til grunna og 1.134 létu lífið. Verksmiðjan framleiddi þekkt vörumerki fyrir vestrænan markað en byggingareglur höfðu verið sniðgengnar og aðbúnaður og öryggismál verkafólks viku fyrir gróðahyggju. Þannig varð krafa vestrænna stórfyrirtækja um ódýra vöru og aukinn gróða þess valdandi að fátækt fólk lét lífið í einu stærsta vinnuslysi heims.
Samtakamáttur vinnandi fólks mikilvægur
Lönd sem hafa náð að halda í lífsgæði almennings og veita fyrirtækjum aðhald eiga nokkuð sameiginlegt. Það eru ríki þar sem lýðræð er virkt, velferðarkerfi er til staðar, verkalýðshreyfing er sterk og fyrirtæki eru í tengslum við samfélagið. Að reyna að grafa undan þessum stoðum er ávísun á verri lífskjör almennings. Það er mikið hættuspil að vega að þessu skipulagi.
Við Íslendingar höfum sem betur fer miklar skoðanir og þannig á það að vera. Við tökumst á um einstaka mál og gagnrýnum okkar kjörnu fulltrúa hvort sem er í stjórnmálum eða félagasamtökum og það er vel. Áhyggjur mínar verða hins vegar meiri þegar vegið er að grunnhugmyndum um lýðræði eða þegar grafa á undan velferðarkerfinu sem við höfum byggt upp saman. Tilhneigingu í þessa átt er að finna víða um heim og jafnvel í ríkjum með mikla lýðræðishefð. Þátttaka í stéttarfélögum fer minnkandi mjög víða. Þar með er dregið úr því afli sem býr í samtakamætti vinnandi fólks til að gæta hagsmuna og semja um kaup og kjör. Að grafa undan verkalýðshreyfingu er það sama og að afhenda stórfyrirtækjum aukin völd.
Í stóra samhenginu megum við hér á Íslandi vera afskaplega stolt af okkar verkalýðshreyfingu og samfélaginu sem við höfum byggt upp en við megum aldrei taka þessu skipulagi sem gefnu eða gefa eftir gagnvart röddum sem vilja draga okkur í aðrar áttir.