Sjónvarpsstjarnan Egill Helgason hefur fengið nóg af þeirri ofurlaunaþróun sem verið hefur hér á landi undanfarin misseri. Honum finnst sem fámennur hópur ofurlaunafólks sé farinn að slíta sig frá samfélaginu og blæs á þær skýringar að nauðsynlegt sé að bjóða samkeppnishæf laun á markaði til að tryggja hæfa stjórnendur fyrirtækja.
Egill tjáir skoðun sína í færslu á Facebook þar sem hann deilir frétt þar sem stjórnarformaður Haga, Davíð Harðarson, réttlætir ofurlaunaþróunina hérlendis. Þar segir sá síðarnefndi að þessi þróun hafi orðið til að tryggja samkeppnishæfni.
„Samkeppnishæf við hvað?,“ spyr Egill og heldur áfram:
„Staðreyndin er sú að orðin er til makráð stjórnenda- og forstjórastétt sem passar gríðarlega vel upp á hagsmuni sína. Stéttarvitundin er hvergi meiri. Þetta fólk skipar hvað annað í stjórnir og stöður og passar upp á að kjörin batni stöðugt, langt úr takti við það sem gerist annars staðar í samfélagnu. Reyndar hefur það gerst að stjórnmálamenn og æðstu stjórnendur hjá hinu opinbera bera sig saman við þennan hóp og hafa sótt launahækkanir í skjóli þess síðustu ár. Upplýsingar sem hafa birst undanfarið um ofurkjör stjórnendastéttarinnar hljóta að torvelda mikið kjarasamninga sem eru framundan. Við búum í örþjóðfélagi og það er út í hött að lítill hópur ofurlaunafólks slíti sig frá samfélaginu.“