Afmælisbarn dagsins er enginn annar en tónlistarséníið Magnús Eiríksson. Er nú 77 ár frá fæðingu þess mikla meistara.
Á Glatkistunni stendur: Magnús er einn allra helsti lagahöfundur íslenskrar tónlistarsögu, á að baki sólóferil sem og feril með hljómsveitum á borð við Mannakorn, Brunaliðið, Pónik og Blúskompaníið auk samstarfs við Kristján Kristjánsson (KK) og fleiri. Magnús hefur einnig í gegnum tíðina starfað með ótal óþekktum sveitum. Meðal laga sem Magnús hefur samið má nefna Ég er á leiðinni, Garún, Línudans, Þjóðvegurinn, Reyndu aftur, Óbyggðirnar kalla, Braggablús, Komdu í partí og Gleðibankinn en en síðast talda lagið var árið 1986 fyrsta framlag Íslands til Eurovision keppninnar. Magnús rak um árabil hljóðfæraverslunina Rín, hann hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 1999.
Mannlíf heyrði í Magnúsi í tilefni dagsins og spurði hvort hann ætlaði að fagna deginum á einhvern hátt.
„Nei, ekki held ég það, ég er bara ekki almennilega vaknaður og hef ekki gert nein plön,“ svaraði Magnús en játaði þó að hann muni þó sennilega fá sér kökusneið.
En hvað er framundan hjá Magnúsi?
„Ég er að spila á tónleikum í Salnum á laugardaginn með KK og Pálma Gunnars.“
Aðspurður hvort hann væri ekki alltaf að semja svaraði Magnús: „já,já, það kemur bara af sjálfu sér.“
Mannlíf óskar þessum mikla snillingi til hamingju með daginn!