Það var á miðnætti þegar lögregla handtók karlmann sem grunaður er um líkamsárás. Maðurinn var mjög ölvaður og var því látinn gista bak við lás og slá í nótt. Þá sinnti lögreglan umferðareftirliti og stöðvaði mann rétt rúmlega fjögur í nótt. Sá var bæði réttindalaus og grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Fyrr um nóttina var ökumaður stöðvaður á hvorki meira né minna en 133 km/klst þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km/klst. Skýrsla var skrifuð á vettvangi og málið afgreitt. Þá voru tveir aðrir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna en samkvæmt dagbók lögreglu var nóttin hin rólegasta.