Síðast en ekki síst
Eftir / Stefán Pálsson
Fyrir um þrjátíu árum setti sögukennarinn minn í Hagaskóla mér fyrir ritgerð um efni að eigin vali. Ég valdi Palestínumálið og fór svo á stúfana að leita heimilda. Þær reyndust einkum samtíningur af nokkrum bæklingum sem fjölfaldaðir höfðu verið af áhugafólki með minnsta mögulega tilkostnaði.
Á þessum árum var frelsisbarátta Palestínumanna algjört jaðarmál í íslenskri pólitík, sem einungis fáeinir vinstriróttæklingar leiddu hugann að. Staðalmyndin af Palestínu-Araba var vígamaður með riffil í hönd að ræna farþegaþotu. Ímynd Ísraelsríkis var á hinn bóginn afar jákvæð: smáþjóðin sem í krafti dugnaðar og menntunar hafði náð að græða upp eyðimörkina, umkringd þungvopnuðum nágrönnum. Reglulega var rifjað upp að fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hefði ekki átt hvað minnstan þátt í stofnun Ísraels, sem talið var okkar stærsta afrek á alþjóðavettvangi.
Í ljósi þessarar forsögu er magnað að skoða viðhorfsbreytinguna. Palestínska þjóðin nýtur samúðar drjúgs meirihluta Íslendinga, sem urðu fyrstir Evrópuþjóða til að viðurkenna Palestínuríki fyrir nokkrum misserum. Sú samþykkt var gerð á Alþingi án mótatkvæða.
Að einhverju leyti má skýra þessi breyttu sjónarmið með grimmúðlegri framgöngu Ísraelsstjórnar en meginástæðan er þó þrotlaus vinna, til þess að gera, lítils hóps baráttufólks. Samtökin Ísland-Palestína hafa með ótrúlegum dugnaði náð að halda málstaðnum á lofti og kveikja áhuga fjölmiðla og stjórnmálamanna, jafnvel þeirra sem almennt hafa lítið sinnt alþjóðamálum. Fundur Steingríms Hermannssonar og Arafats, sælla minninga, var birtingarmynd þess.
Allt ævintýrið í kringum hljómsveitina Hatara um síðustu helgi er áminning um þetta. Hugmyndin um slíkan listgjörning á Eurovision, sem nyti víðtæks stuðnings þjóðarinnar, hefði verið fáránleg fyrir aldarfjórðungi og væri enn í dag víðast hvað í Evrópu. Það er mikilvægt að muna að viðhorf einstaklinga og samfélaga breytast ekki af sjálfu sér. Til þess þarf botnlausa vinnu. En það er líka gott að minna sig á þau skipti þar sem baráttan skilar árangri – þegar dropinn nær að hola steininn.