Nóttin var erilsöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og töluvert um ölvun. Tilkynning úr austurhluta borgarinnar barst lögreglu rétt fyrir klukkan tvö í nótt, þegar þrír aðilar réðust að einum. Árásarþoli var illa leikinn í andliti og var hann fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Bráðadeild. Ekki er vitað um ástand mannsins. Þegar lögregla kom á vettvang voru árásaraðilarnir horfnir á bifreið sinni.
Lögreglan þurfti að hafa afskipti af tveimur stúlkum inni á vínveitingastað um klukkan hálf tvö í nótt. Reyndust þær undir 18 ára aldri. Við nánari athugun var rekstrarleyfi staðarins útrunnið. Veitingastaðurinn var tæmdur og skýrsla vegna málsins rituð.
Tvær aðskildar tilkynningar bárust vegna slysa á hlaupahjóli. Annars vegar kona sem féll af hlaupahjóli og hlaut höfuðáverka og hins vegar karlmaður sem lét sama leik en hlaut opið beinbrot á fingri. Bæði voru þau flutt með sjúkrabíl til aðhlynningar á Bráðadeild.
Í það minnsta tveir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu vegna hótanna og líkamsmeiðinga.
Töluvert var um að lögreglan stöðvaði ökumenn í nótt sem voru grunaðir um ölvun eða að vera undir áhrifum fíkniefna við akstur.