Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-2.2 C
Reykjavik

Kærleiksrík mörk til þess að ná árangri í lífi og starfi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Líklega hefur amma þín sagt þér að sælla sé að gefa en þiggja. Ömmur vita alltaf best. Nú hafa rannsóknir staðfest það sem þær, og reyndar flest trúarbrögð heimsins, boða.

Adam Grant sem er bandarískur prófessor hefur rannsakað hverjir það eru sem ná bestum og mestum árangri í starfi. Hann gaf út bókina Give and Take um þetta efni. Í stuttu máli má segja að þeir sem eru gjafmildir og góðhjartaðir ná mestum árangri. Hins vegar eru það líka þeir sem ná sístum árangri. Meginmunurinn á þeim góðhjörtuðu sem ná árangri og hinum sem ná alls ekki árangri liggur í því hversu klár viðkomandi er í að setja sjálfum sér og öðrum mörk.

Við þekkjum öll manneskju sem er svo góð í að gera öðrum greiða og hjálpa öllum í kringum sig en hefur svo engan tíma fyrir sjálfan sig. Í vinnunni er þetta sú/sá sem alltaf er til í að létta öðrum lífið og gerir það með bros á vör en er síðan allar helgar að vinna sín eigin störf því tíminn flaug yfir vinnudaginn við að sinna öðrum. Yfirleitt er það sú hin sama eða sá hin sami sem sér um stórfjölskylduna, hjálpar vinum og vandamönnum og slekkur ekki á símanum sínum ef einhver þyrfti að ná í hann. En upplifir sjálfur að líf hans sé eins og að sitja á suðupotti sem bráðum muni springa í loft upp.

Samkvæmt Adam Grant eru það þeir sem kunna að gefa, af tíma sínum og öðrum björgum, sem ná mestum árangri. Þetta er fólkið sem setur þau mörk að gera öðrum greiða þannig að það komi ekki niður á tíma þeirra sjálfra. En gefur þannig að það hefur samt sem áður mikið að segja gagnvart þeim sem þiggur. Það lætur ekki sín eigin verk falla úr hendi fyrir aðra um leið og einhver þarf á þeim að halda, heldur sér til þess að greiðinn komi ekki niður á þeirra eigin verkefnum. Þetta eru oftast vinsælir einstaklingar sem þekkja marga og geta því auðveldlega tengt fólk saman. Grundvallaratriði er að þessir einstaklingar kunna að leita sér hjálpar þegar þeir þurfa á því að halda. Hvort sem er við stór eða lítil verkefni. Hægt er að kalla þetta „meðvitaða góðmennsku“. Ég myndi segja að þetta væri raunveruleg góðmennska þar sem fólk getur gefið frá hjartanu án þess að vera skuldbundið gjöfinni eða gefandanum.

Þeir sem ná sístum árangri eru þeir sem Adam Grant kallar „takers“ eða þeir sem hrifsa til sín völd, verkefni og reyna að fá sem mest fyrir sjálfa sig. Til að byrja með á starfsferli sínum ná þessir einstaklingar oft langt því að þeir slá ryki í augu fólks með því að „sleikja sig upp við þá sem eru ofar þeim í goggunarröðinni og sparka niður á við“ eins og Adam Grant orðar það. Stundum komast slíkir einstaklingar til valda vegna aðstæðna sem ýta undir þá, eins og Trump er dæmi um. Til langs tíma litið eru þeir líklegri til að falla og fallið getur þá verið hátt.

Rannsóknir Adams Grant eru merkilegar fyrir þær sakir að þær hjálpa okkur að skilja kærleikann. Manneskja sem er kærleiksrík þarf að læra að þekkja takmörk sín, í stað þess að segja já við öllu þá leitar hún að þeirri leið sem hentar best, út frá þörfum sjálfrar sín og annarra. Þetta gerir kærleiksrík manneskja til þess að geta gefið sem mest og best og sjálfri sér ekki síst.

- Auglýsing -

Þetta vorið er því gott að gróðursetja mörk – svo maður nái sem mestum og bestum árangri fyrir sjálfan sig og aðra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -