Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Hvalræði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Henry Alexander, heimspekingur

AA Gill var lengi einn vinsælasti blaðamaður Bretlandseyja. Hann var þekktastur fyrir veitingahúsagagnrýni sína en pistlar hans voru raunar af margvíslegu tagi. Frásagnir af ferðalögum vöktu ekki síst athygli. Hann hafði sérstakt lag á því að fá íbúa Mið-Englands til að frussa upp úr tebollunum með því að lýsa uppátækjum sínum víða um heim. Ekki síst þegar hann ferðaðist með fjölmiðlamanninum Jeremy Clarkson.

Þeir félagarnir komu einu sinni til Íslands og skrifuðu mikinn bálk um ævintýri sín í The Sunday Times. Það var í þá daga þegar enginn vissi neitt um Ísland og við klóruðum okkur í höfðinu yfir því hvort landið myndi þola það ef fjöldi ferðamanna færi yfir 100.000 á ári. Til þess að ganga fram af lesendum sínum í þetta sinn ákvað Gill að snæða hval. Réttlæting hans var að hvalir væru bara ofvaxnir fiskar – það sem hefði sporð og synti um í sjónum væri fiskur í hans bókum.

Í ljósi nýjustu frétta um að Hval hf. hafi verið veitt leyfi til veiða á langreyðum veltir maður því fyrir sér hvort Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi tekið grín Gills alvarlega um árið og ætli ekki að setja sig inn í siðferðilega umræðu um veiðar á sjávarspendýrum. Vissulega er í þetta sinn reynt að bæta umgjörð veiðanna með því að gera kröfu um skil á dagbókum en þó kemst maður ekki hjá því að undrast þá tímaskekkju sem veiðileyfið er.

Ég hef áður skrifað um það í blöðin hvernig siðferðileg viðmið fólks varðandi skotveiðar á villtum spendýrum hafa tekið miklum breytingum á undanförum áratugum. Í samtímanum hafa þessi viðmið tekið á sig nokkuð skarpa mynd. Auðvitað er það fólk til sem hafnar öllum skotveiðum á spendýrum, en ég efast um að svo róttækt viðhorf sé meginviðmið. Ef veiðar á langreyðum væru með þeim hætti að hægt væri að tryggja sem minnsta hreyfingu á dýri eða veiðimanni, og að hægt sé að bera góð kennsl á dýrið, til dæmis þannig að sjaldgæfir blendingar ættu ekki á hættu að fá skutul í sig, væru veiðarnar minna umdeildar. Einnig myndi það hjálpa ef ljóst væri að veiðarnar tryggðu lífsviðurværi fólks sem væri háð því að fá kjötið, ef okkur stæði ógn af villtum hvölum umhverfis landið eða ef við bærum ábyrgð á grisjun stofna eftir eigið inngrip í vistkerfi. Ekkert af þessu á við um veiðar Hvals hf. á langreyðum.

Ef ég man rétt reyndi Gill einnig að stríða lesendum sínum með því að dásama íslenska loðfeldi og var hann myndaður í einum slíkum. Ég man ekki hvort hann reyndi einu sinni að réttlæta það blæti sitt. Mig grunar að réttlætingin hefði verið svipuð þeim rökum sem sumir hafa reynt að beita til að styrkja siðferðilegar undirstöður framleiðslu á klámefni: Að fólk hafi rétt til að örvast. Eru það góð rök? Varla. Rök af því tagi geta haft ákveðið gildi í dægurumræðu en vonandi rata þau seint inn í ákvarðanatöku lýðræðislegra stofnana samfélagsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -