Kjúklingur er hráefni sem býður upp á margskonar fljótlega rétti sem nýta má bæði í miðri viku þegar fjölskyldan þarf eitthvað hollt eftir annasaman dag sem og um helgar þegar góða gesti ber að garði. Hér er dásamleg indversk uppskrift að heilelduðum kjúklingi.
Hægt er að flýta fyrir eldun á heilum kjúklingi með því að fletja hann út. Þá er bakbeinið tekið úr fuglinum og brjóstkassanum þrýst niður. Hin hefðbundna leið við að elda heilan kjúkling þýðir að bringan trónir hæst, næst mesta hitanum í ofninum og lærin eru þétt upp við kjúklinginn og fá þannig ekki á sig jafnan hita. Með þessum hætti liggur kjúklingurinn flatur og eldast jafnt. Jógúrtsósan með harissakjúklingnum er einnig góð með þessum rétti.
Indverskur útflattur kjúklingur með krydduðum kartöflum
fyrir 3-4
1 heill kjúklingur
1 msk. kummin
1 msk. kóríander
1 tsk. kanill
½ tsk. túrmerik
3 msk. möndlumjöl
1 tsk. salt
½ tsk. pipar
3 hvítlauksgeirar, saxaðir
½ dl hrein jógúrt
ferskur kóríander, til skrauts
Þerrið kjúklinginn með eldhúspappír og látið hann liggja á bringunni ofan á skurðarbretti. Notið eldhússkæri eða góðan hníf til að skera bakbeinið úr kjúklingnum.
Snúið honum við og þrýstið með hendinni fyrir neðan þumalinn á lófanum ofan á bringuna til að fletja hann út. Blandið kryddinu, möndlumjölinu og hvítlauknum saman við jógúrtina.
Nuddið kjúklinginn með jógúrtmarineringunni og látið marinerast í 1 klst. og allt að sólarhring. Hitið ofninn í 220°C. Hyljið kjúklinginn með álpappír og eldið í miðjum ofninum í 20 mín.
Takið álpapírinn af kjúklingnum og eldið í u.þ.b. 20 mín. til viðbótar, eða þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn.
Kryddaðar kartöflur
1 kg kartöflur
30 g smjör
1 msk. ólífuolía
2 tsk. sinnepsfræ
1 tsk. kumminfræ
1-2 tsk. salt
½ tsk. malaður svartur pipar
½ sítróna
ferskt kóríander
Sjóðið kartöflurnar þar til þær hafa eldast í gegn, skrælið, skerið í bita og dreifið vel úr þeim svo þær nái að þorna áður en þær eru steiktar.
Hitið smjörið og ólífuolíuna á meðalstórri pönnu og þegar smjörið hefur bráðnað setjið þá fræin á pönnuna. Eldið þar til fræin fara að smella, bætið þá kartöflunum út á pönnuna og steikið þar til þær fara að brúnast.
Saltið og piprið og kreistið safa úr sítrónunni yfir. Setjið í skál og sáldrið söxuðum kóríanderlaufum yfir.
Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Stílistar / Folda Guðlaugsdóttir og Nanna Teitsdóttir