Höfundur / Henry Alexander, heimspekingur
Ég dvaldi í Flatey í síðustu viku. Tók tvær bækur með mér sem nýverið hafa komið út í íslenskri þýðingu. Þetta voru bækurnar Dauði Evrópu – innflytjendur, sjálfsmynd, íslam eftir Douglas Murray og Glæpur við fæðingu eftir Trevor Noah. Við lesturinn kom í ljós að bækurnar áttu sameiginlegan þráð: kynþáttaandúð. Önnur lýsir því hvernig það er að vera þolandi slíkrar andúðar. Hin bókin hvetur til hennar.
Það mætti hafa langt mál um frábæra bók Trevors Noah í öflugri íslenskri þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur. Kannski að ég skrifi um hana seinna. Það er þó bók Murrays sem situr meira í mér og skilur eftir fleiri spurningar. Ein slík er hvort höfundur meini það sem hann segir eða hvort aðeins sé um að ræða nokkurs konar málfundaæfingu sem rataði á prent. Ég hallast að því síðarnefnda og hef reynt að orna mér við þá tilhugsun að hann meini ekki neitt með þessu. Sannfæring höfundar virkar býsna þunn og ég er sem betur fer ekki viss um að hann hafi nokkra skoðun í þessa átt.
Stíllinn og mælskubrögðin eiga sér rætur og fyrirmyndir í hefðbundinni ræðumennsku málfundafélaga þar sem spilað er á þær ályktanir sem reynt er að fá lesanda til að draga. Dæmi um þetta má sjá á bls. 19 þar sem í sömu setningu er sagt að „hvítir Bretar“ (hvað svo sem það er) verði „í minnihluta í eigin höfuðborg í lok áratugarins“ og svo bætt við að fjöldi múslima muni „tvöfaldast“. Auðvitað lætur Murray ekki nappa sig á að hafa sagt að fjöldi múslima fari fram úr fjölda Breta í London – hann treystir því að lesandinn dragi þá röngu ályktun. Ég neita þó ekki að þetta getur verið áhrifaríkt. Nú sjáum við Boris Johnson verða forsætisráðherra Bretlands í skjóli svipaðra mælskubragða.
Hver veit nema maður eigi ekki að eltast við einstök atriði í málfundaæfingum eins og þeirri sem Murray býður upp á. Þó er ein forsenda sem einkennir málflutning hans sem ég get ekki annað en hnýtt örlítið í. Hér á ég ekki við hið yfirgripsmikla þekkingarleysi sem oft er hvimleiður fylgifiskur góðrar menntunar. Rugl hans um stöðu lista og menningar í samtímanum er í besti falli vandræðalegt og ég flissaði örlítið yfir mótsagnakenndum málflutningi um hina einstöku menningu Evrópuríkja sem ættu þó ekkert sameiginlegt. Verri voru þó einhvers konar útskýringar á veraldarhyggju í samtímanum og hugsjónum upplýsingarinnar. Þar glitti í svo hjákátlegan skilning að maður veltir því fyrir sér hvers vegna enginn er fenginn til að lesa svona útgáfu yfir.
Atriðið sem ég vil hnýta í varðandi bókina um dauða Evrópu er sú staðhæfing að „líf í nútímalýðræðisríkjum er einfalt og grunnt. Lífið í Vestur-Evrópu nútímans hefur tapað tilgangi sínum og skynsemi“. Og Murray margítrekar að Evrópa sé „þreytt“ og komin að fótum fram. Slíkan málflutning má svo heyra víða í samtímanum, til dæmis á Íslandi. Ég kannast persónulega við fólk sem heldur þessu fram. Fólk sem maður hittir varla án þess að það sé nýkomið frá Amsterdam, Kaupmannahöfn, London, Varsjá, Lissabon eða Búdapest. Og hefur þegar pantað næstu ferð.
Hvað blasir við okkur? Eitt stærsta vandamál samtímans er tilkomið vegna þess að það hefur aldrei verið skemmtilegra að vera til í Evrópu. Það er auðvelt, ódýrt og öruggt að ferðast. Við ferðumst allt of mikið til og um Evrópu. Hver einasta borg er að springa úr sköpunarmætti – alþjóðleg matargerð og önnur menning hefur aldrei verið á færi jafn margra. Er röfl afturhaldssamra klerka (úr hvaða trúarbrögðum sem er) „einkenni“ á samtíma Evrópu? Ég yrði hissa ef það yrði niðurstaða sagnfræðinga framtíðarinnar sem myndu rýna í samtíma okkar.
Staðreyndin er sú að Evrópa er að upplifa ávöxt mannréttindabaráttu undanfarinna áratuga. Að láta til dæmis eins og að fólk sem fær nú í fyrsta sinn víða í álfunni að lifa samkvæmt kynvitund sinni og kynhneigð sé „þreytt“ og þrái gömul gildi að nýju er galið. Svo maður orði það ekki sterkar.
Vissulega eru vandamál víða. Atvinnuleysi ungs fólks og uppgangur öfgasinnaðra stjórnmálaafla eru dæmi um hluti sem þarf að bregðast við. En slík vandamál þarf að leysa á viðeigandi forsendum í stað þess að hlaupa eftir kryddsíld um ímyndaða óvini vestrænnar menningar. Mig grunar að þeir einu sem eru að farast úr þreytu og leiðindum í samtímanum, og vegna samtímans, séu einmitt þeir sem nenna að dikta upp slíkar sögur.